138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

jöfnun námskostnaðar.

[15:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Þau skýra að einhverju leyti að vissulega hafi liðurinn hækkað mjög mikið frá fyrra ári, en við það má einnig bæta að á þessu ári, þ.e. núna í haust held ég að ég fari rétt með, hafi aldrei fleiri framhaldsskólanemar innritast til náms, m.a. vegna atvinnuástandsins í landinu. Fyrir vikið skyldi maður ætla að að öllu óbreyttu hefði fjárþörf sjóðsins vaxið frá fyrra ári til þessa árs og á næstunni. Og þá veltir maður fyrir sér hvernig það getur gerst í fjárlagavinnu að menn ráðist hreinlega á þennan lið, alveg óháð því hvort hann hafi hækkað mikið og að í prósentum líti þetta illa út. Ég hélt að við ætluðum að verja grunnþjónustuna í landinu og þetta væri einn af þeim liðum til að tryggja jafnrétti til náms óháð bæði búsetu og efnahag fjölskyldna.