138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

málefni Götusmiðjunnar.

[15:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Getur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Árni Páll Árnason upplýst hvort fjárframlög til Götusmiðjunnar verði skorin niður?

Ekki er hægt að sjá á fjárlögum hvort eða hve mikið Götusmiðjan fær til reksturs starfsemi sinnar. Er hæstv. ráðherra meðvitaður um reynslu annarra þjóða á krepputímum vegna aukinnar neyslu ungs fólks á ávanaefnum og hvað það mun kosta samfélagið mikið ef möguleikar ungra fíkla á meðferð verða skertir? Hefur hæstv. ráðherra kynnt sér ástand mála hjá ungum fíklum og hve mikið neysla hefur aukist nú þegar?

Samkvæmt heimildum hafa Götusmiðjunni borist margfalt fleiri fyrirspurnir um meðferð fyrir börn í neyð. Þeir sem ekki komast í meðferð munu leiðast út í síbrot og á endanum kosta samfélagið okkar margfalt meira en ef strax væri hægt að vinna úr vandanum með bæði langtíma- og skammtímameðferðarúrræðum. Eins og staðan er í dag eru engin langtímaúrræði til fyrir börn sem glíma við fíknir af ýmsu tagi.