138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

greiðslubyrði af Icesave.

[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður er fljótur að reikna og það er gagnlegt að setja upp ýmis dæmi. Ég held að fáum detti samt í hug ávöxtunarkrafa af því tagi sem hann nefndi hér. Dæmi eru í sjálfu sér alltaf góð og gagnleg til að læra af þeim og ef kommurnar eru settar á réttan stað eru útreikningarnir gagnlegir.

Brussel-viðmiðin eru færð inn í viðaukasamninginn þannig að þau hafa sterkari stöðu nú en þau hafa áður haft. Þar er m.a. kveðið á um (TÞH: Það á ekki að lyppast niður.) að það er ætlað að stuðla að því að Ísland geti endurreist efnahag sinn og það er markmiðið með þessu öllu saman. (Gripið fram í: Þetta reddast.) Væntanlega eru aðrir hlutir og nærtækari okkur í tíma alvarlegri ógn við efnahagslega velferð Íslands til framtíðar en það sem hugsanlega gerist 2016 eða 2024. (Gripið fram í.)

Síðan verð ég bara að segja alveg eins og er að það er engum samboðið, og ekki fyrirspyrjanda hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að tala eins og einhver vilji af ásetningi velja þetta, að einhver eigi (Forseti hringir.) eitthvert val í þessum efnum sem hægt sé að komast hjá … (Gripið fram í.) Nei. (Gripið fram í.) Þú skalt segja mér um það, (Gripið fram í.) já, þú ert nú hár í loftinu. (Gripið fram í: Þetta var …) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … Þetta er ekki hægt.)