138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

útflutningur á óunnum fiski.

[15:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Vart þarf að taka fram að okkur ber að reyna með öllum ráðum að halda uppi atvinnustigi. Í ljósi þess langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann geti beitt einhverjum ráðum til þess að auka fiskvinnslu í landinu. Það berast nefnilega kvartanir víða að um að allt of mikill fiskur sé fluttur út óunninn og enda þótt ferskfiskmarkaðir okkar á Bretlandseyjum og víðar séu okkur mjög mikilvægir ber að hafa hitt í huga að það er líka gríðarlega mikilvægt að fiskvinnslur í landinu hafi úr einhverju að spila. Svo er ekki í dag. Allt of mikið að mati fiskverkenda fer óunnið út og fyrir vikið er atvinna mjög margra í húfi.

Þess vegna spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist með einhverju móti koma til móts við óskir fiskverkenda um allt land. Og eins hvort hann hafi yfirleitt einhverja hugmynd um hver aukningin í útflutningi á óunnum fiskafla hafi orðið á síðustu mánuðum og missirum.