138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

útflutningur á óunnum fiski.

[15:34]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem mér fundust að vísu nokkuð loðin. Krafa fiskverkenda mjög víða um land er að gripið verði til beinna aðgerða. Ég heyrði ekki á svörum hæstv. ráðherra, þótt viljinn sé greinilega fyrir hendi, að farið yrði út í beinar aðgerðir.

Hér er mikið í húfi fyrir, eins og ég gat um, fjölda fiskverkenda hringinn í kringum landið og fyrir vikið er fjöldi starfa í húfi. Menn segja í mín eyru að fjölda fiskverkunarhúsa kunni að verða lokað innan tíðar ef ekki verður farið í róttækar aðgerðir til að koma til móts við þennan vanda.

Því spyr ég ráðherra aftur: Mun hann grípa til beinna aðgerða sem skila árangri á komandi vikum?