138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[15:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í gær kynnti ríkisstjórnin áform sín um fullkomna uppgjöf og í raun niðurlægingu vegna hins margumtalaða Icesave-máls. Það var kynnt, ekki hvað síst út frá því að þetta væri nauðsynleg niðurstaða, lengra hefði ekki verið komist ef menn ætluðu að fá þá fyrirgreiðslu sem vonast væri eftir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Söguleg tíðindi sem í raun ættu að vera heimsfrétt urðu samhliða þessu, að opinberlega var viðurkennt af hálfu Íslendinga, sem og Breta og Hollendinga, að þessar þjóðir hefðu staðið í vegi fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, alþjóðastofnun sem Íslendingar voru stofnaðilar að, mundi lána okkur peninga nema við gengjum að þessum nauðungarsamningum sem ríkisstjórnin ætlar nú að taka þátt í að þröngva upp á Íslendinga. Þetta eru mikil tíðindi. Þessu hefur að sjálfsögðu verið haldið fram áður, en að það skuli nú vera staðfest hljóta að vera tíðindi.

En til hvers, til hvers erum við að fórna þessum gífurlegu hagsmunum til að komast í náðina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ætlar að taka þátt í, og hefur tekið þátt í því, að kúga okkur með þessum hætti? Hvað bætir það stöðu okkar að hljóta fyrirgreiðslu af hálfu slíkrar stofnunar? Upprunalega var haft samband við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hann beðinn að koma hér að málum þegar staðan var allt önnur en hún er nú. Menn voru verulega hræddir um að hér lokuðust öll efnahagsleg samskipti við útlönd og Ísland væri í raun búið að missa allt efnahagslegt traust. Síðan þá hefur margt breyst, ekki bara hér á landi heldur í heiminum öllum, og staðan orðin allt önnur. Fyrir vikið hafa margir orðið til að benda á það að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé hugsanlega ekki einu sinni nauðsynleg núna. Í öllu falli mundi maður vilja fá skýringar frá hæstv. fjármálaráðherra á því hvers vegna svona mikið sé á sig leggjandi til að fá fyrirgreiðslu sjóðsins.

Fram að þessu hefur því verið haldið fram að lánin séu nauðsynleg til að mynda einhvers konar gjaldeyrisvarasjóð og að með því styrktist gengi krónunnar. En það er ekki svo því að fjölmargir, sérstaklega erlendir hagfræðingar, hafa bent á þá augljósu staðreynd að það er ekki hægt að styrkja gengi gjaldmiðils til langs tíma með lántökum. Gjaldmiðill er í rauninni ekkert annað en ávísun á verðmæti, nokkurs konar hlutabréf í því landi sem gjaldmiðillinn tilheyrir, og rétt eins og fyrirtæki getur ekki tekið lán til að kaupa upp hlutabréf í sjálfu sér og halda uppi verðmæti hlutabréfa sinna getur ríki ekki tekið lán til að halda uppi verðmæti gjaldmiðilsins. Hættan er því sú að við förum sömu leið og mörg önnur ríki hafa farið undir handleiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tökum gríðarleg lán í erlendri mynt, notum þau í vonlausri tilraun til að halda uppi gengi gjaldmiðilsins sem lækkar og lækkar, eðlilega, eftir því sem skuldirnar aukast og gerum það sem kallað er að fóðra hákarlana, borga út þá sem sitja hér uppi með fjárfestingar, áhættufjárfestingar, rétt eins og gerðist til að mynda í Argentínu, þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitti sér til að þvinga það land til að borga út þá áhættufjárfesta sem þar sátu fastir með peninga. Raunar voru þeir að stórum hluta svokallaðir hrægammasjóðir, sjóðir sem höfðu keypt skuldir sem þá voru lítils virði til þess að reyna að innheimta. Það gerðu þeir, og það gerðu þeir með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Forseti Argentínu kvartaði reyndar undan þessu framferði í september 2004, en hver voru viðbrögðin? Viðbrögðin voru þau að viku seinna samþykkti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með fulltrúum Evrópusambandsins og G7-ríkjanna tilmæli til Argentínu um að borga, standa að þessum innheimtuaðgerðum með sér og borga út þessum svokölluðu hrægammasjóðum.

Hvað á að koma í veg fyrir að þróunin verði sú sama á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess að öll merki eru um að við séum að þróast í sömu átt og gerðist í Argentínu? Hér eru hlutirnir að þróast með nákvæmlega sama hætti. Það birtist ekki hvað síst í algjörlega fráleitri vaxtastefnu Seðlabankans sem er tilkomin vegna fyrirmæla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hér eru hæstu vextir í heimi. Á meðan ríki allt í kringum okkur eru að lækka vexti, jafnvel niður í 0%, algjörlega burt séð frá verðbólgu, til þess að koma atvinnulífinu í gang, er hér vaxtastig upp á 12%. Það heldur ekki bara atvinnu lífinu niðri, heldur felur í sér gífurlegan beinan kostnað vegna þess að ríkið þarf að borga þessa vexti á endanum, vexti sem renna að miklu leyti til þessara erlendu áhættufjárfesta sem eru undir verndarvæng Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú er svo komið að vaxtagreiðslur ríkisins eru líklega um hálfur milljarður á dag. Þetta eru miklu hærri upphæðir en nemur þeim niðurskurði sem við stöndum nú frammi fyrir að ræða hér, eða skattahækkununum vanhugsuðu sem ríkisstjórnin boðar. Allt er þetta gert fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en allt vinnur þetta í raun gegn hagsmunum þjóðarinnar. Til að geta með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins unnið enn frekar gegn hagsmunum þjóðarinnar ætlum við að ganga frá Icesave-samkomulaginu í fullkominni niðurlægingu.

Hér stenst ekkert, og ekkert gengur upp í málflutningi ríkisstjórnarinnar. Menn hljóta að velta fyrir sér hvers vegna menn eru tilbúnir að fórna svona miklu.

Ég held að ólíkar skýringar séu á því milli stjórnarflokkanna tveggja. Annar flokkurinn er mjög áhugasamur um félag sem viðkomandi ímyndar sér að sé til staðar einhvers staðar úti í löndum og heiti alþjóðasamfélagið. Þetta félag er svo mikils virði fyrir þennan flokk og að fá að vera þátttakandi í því að það má líta fram hjá öllu öðru. Það má fórna hagsmunum þjóðarinnar til að vera sem mest í náðinni hjá þessu ímyndaða félagi.

Hinn flokkurinn stendur hins vegar frammi fyrir því — nú er ég að tala um Vinstri hreyfinguna – grænt framboð — að vera stöðugt hótað af samstarfsflokknum, að geri hann ekki eins og Samfylkingin vill sé ríkisstjórnin farin. Þessar hótanir höfum við heyrt alveg frá því að ríkisstjórnin varð til, og raunar frá því áður en hún varð til, og þær virðast enn á ný ætla að bíta. Raunar fá þeir eitt í viðbót, þeir fá að standa í vegi fyrir nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu. Þetta banvæna faðmlag þessara tveggja vinstri flokka er að leiða okkur í efnahagslega glötun. Ég fer fram á það að hæstv. fjármálaráðherra útskýri fyrir þinginu og fyrir þjóðinni hvers vegna fórna megi öllu til að auka enn á skuldir þjóðarinnar sem á við þann vanda fyrst og fremst að etja að vera í skuldakreppu.