138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[15:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að fram komi að málshefjandi bað um umræðu utan dagskrár um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Reyndar er það nú svo, strangt tekið, að forsvar fyrir samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn færðist til efnahags- og viðskiptaráðherra 1. október sl., en mér er að sjálfsögðu ekkert að vanbúnaði að svara fyrir það.

Meginmarkmið þeirrar áætlunar eins og hún var samin í fyrrahaust er þríþætt. Það er í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og atvinnulífi, ná stöðugu gengi gjaldmiðilsins og skapa forsendur fyrir lækkun vaxta. Í öðru lagi að endurheimta jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi sem fyrst og skapa því skilyrði og möguleika til að sinna vel innlendri atvinnustarfsemi, ávaxta sparifé landsmanna og þar fram eftir götunum.

Til að ná fram þessum markmiðum var m.a. talið nauðsynlegt að byggja upp mun öflugri og trúverðugri gjaldeyrisvaraforða en til staðar var og til staðar er í Seðlabanka Íslands. Í því skyni var áætlunin að allt að 5 milljarðar bandaríkjadala gætu verið til ráðstöfunar eða að Ísland ætti rétt á, ef á þyrfti að halda, gjaldeyrislánum sem næmu allt að þeirri upphæð, u.þ.b. 2 milljörðum bandaríkjadala frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sjálfum og um 3 milljörðum bandaríkjadala frá nokkrum Evrópuríkjum.

Með þeim lánasamningum sem þegar hafa verið gerðir við Færeyjar, Danmörku, Finnland, Noreg, Svíþjóð og Pólland hefur þessu marki að mestu leyti verið náð, þ.e. þessir sex tvíhliða lánasamningar fela í sér heildarfjárhæð að jafnvirði tæplega 3 milljarða bandaríkjadala. Færeyjalánið var borgað út strax við undirskrift samnings 23. mars 2009 og lán Norðurlandanna fjögurra sem samtals er upp á 1.775 milljónir evra, þ.e. nálægt 328 milljörðum íslenskra króna, geta Íslendingar dregið á eftir því sem þeir kjósa í fjórum jöfnum áföngum sem tengdir eru fyrstu fjórum endurskoðunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagsáætluninni. Lánið frá Póllandi upp á 630 milljónir pólskra slota, þ.e. nálægt 28 milljörðum íslenskra króna, má síðan draga á í þremur áföngum sem tengdir eru annarri, þriðju og fjórðu endurskoðun áætlunarinnar.

Það er rétt að vekja athygli á því að bæði norrænu samningarnir og pólski samningurinn eru mjög sveigjanlegir að því leyti að þeir heimila allir að ekki sé dregið á hvern áfanga til fulls hverju sinni og þó haldist áfram réttur síðar á samningstímanum til að draga á það sem ódregið er. Enn fremur má endurgreiða lánin fyrir umsamda gjalddaga hvenær sem er án sérstaks kostnaðar fyrir lántakandann. Hér er því í raun og veru um að ræða lánaramma, einhvers konar öryggisnet, lántökurétt, sem Ísland hefur á bak við sig en þarf ekki að nota nema eftir því sem það er talið æskilegt hverju sinni.

Í þessu sambandi er athyglisvert að margir hafa haldið því fram að svokallaðar lánalínur væru heppilegri kostur fyrir okkur. Það er síður en svo sjálfgefið að svo sé, hvorki að þær væru ódýrari né að þær væru tryggilegri fyrir okkur. (Gripið fram í.) Í sambandi við svonefndar lánalínur þarf yfirleitt að greiða svokallað skuldbindingargjald, „commitment fee“, og það miðast við heildarupphæð þess sem draga má á.

Samningarnir eins og þeir sem hafa verið gerðir við Norðurlöndin og Pólland fela ekki í sér slíkan kostnað, eru í raun og veru án skuldbindingargjalds og hafa ekki í för með sér kostnað fyrr en ákveðið er að draga á lánin. Þegar að þessu er hugað held ég segja megi að náðst hafi fram skilmálar á þessum lánum sem fela það í sér að við getum algerlega eftir aðstæðum og mati okkar á þörf nýtt okkur þennan lánarétt. Hann er til staðar, sem er mikilvægt og skapar öryggi, án þess að við þurfum að nota meira af lánunum en við teljum nauðsynlegt. Að sjálfsögðu hefur aldrei staðið til að taka meiri gjaldeyrislán en þarf hverju sinni. Lánasamningarnir sex sem gerðir hafa verið gefa einmitt kost á slíkri framkvæmd.

Það er líka rétt að leggja á það áherslu, frú forseti, að í viljayfirlýsingunni frá 15. nóvember 2008 er einmitt sérstaklega vikið að því að í tengslum við reglulega ársfjórðungslega endurskoðun verði þörfin fyrir lántökur metin sem og framvinda prógrammsins að öðru leyti. Slík endurskoðun er innbyggð í samstarfið og mun fara fram jafnóðum og því miðar.

Þannig hefur það t.d. þegar verið rætt, og var gert áður en til kom að Rússar gætu ekki staðið við fyrirheit sín um að veita lán inn í þennan pakka, að endurmeta hvort eð er þörfina og þá væntanlega til lækkunar því að margt bendir nú til að Ísland geti komist af með mun minni lántökur í þessum efnum en upphaflega var ráð fyrir gert.

Sömuleiðis verða að sjálfsögðu endurmetnir aðrir þættir áætlunarinnar, t.d. nú þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir innan fárra vikna um það hversu mikil fjárbinding ríkisins verður við að endurreisa bankana. Það stefnir í að þar verði á ferð til muna lægri fjárhæðir með tilsvarandi lægri vaxtakostnaði fyrir ríkið en upphaflega var ráð fyrir gert.

Ég held að við eigum það örugglega öll sameiginlegt í þessum sal að við munum taka þeim degi fagnandi og gleðjast yfir honum þegar Ísland verður ekki lengur í þörf fyrir neina utanaðkomandi aðstoð eða utanaðkomandi íhlutun. Sá dagur er hins vegar ekki genginn í garð. Við þurfum fyrst að sjá fyrir endann á því og tryggja stöðu okkar með fullnægjandi gjaldeyrisvaraforða. Það væri afar óráðlegt að hverfa frá því. Það er ekkert sem bendir til þess að við eigum annars staðar kost á hagstæðari lánakjörum en þeim sem samist hefur um á pólitískum grundvelli, og munaði væntanlega miklu ef Ísland ætti yfir höfuð aðgang að alþjóðlegum lánamörkuðum um þessar mundir.

Komist hins vegar sá stöðugleiki hér á og endurheimtist sá trúverðugleiki á íslenskri hagstjórn og íslenska efnahagskerfinu sem markmiðið er mun sú staða breytast, og vonandi fyrr en margir eiga von á. Þá meta menn hvort jafngóð eða hagstæðari kjör bjóðist á alþjóðlegum lánamörkuðum og að sjálfsögðu verða þau þá þegin frekar en að taka lán annars staðar.

Ég held að framtíðin muni fyrst og fremst skera úr um það nákvæmlega hvernig þessu vindur fram. Það verður jafnóðum endurmetið (Forseti hringir.) eins og ég hef margoft tekið hér fram hver þörf okkar er í þessum efnum. (Forseti hringir.)