138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[15:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það frumkvæði formanns Framsóknarflokksins að efna til þessarar umræðu um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er hárrétt sem fram kom í máli hans að auðvitað eru það stórtíðindi að Bretar og Hollendingar séu tilbúnir til að fallast á það með skriflegum hætti — með skriflegum hætti — að þeir hafi staðið í vegi fyrir endurskoðun áætlunar okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Reyndar var okkur þetta flestum orðið ljóst fyrir löngu. Síðast fékk ég þetta staðfest þegar yfirmaður sjóðsins hér á landi tók fram á fundi sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins áttum með honum að íslensk stjórnvöld hefðu gert allt það sem hægt var að ætlast til af þeim til að tryggja endurskoðun áætlunarinnar.

Það var eitthvert eitt atriði sem ekki var hægt að ræða frekar á þeim fundi sem stóð í veginum. Við vitum öll að það hefur verið Icesave-deilan og við vitum öll að Bretar og Hollendingar hafa beitt sér gegn okkur í því máli. Við vitum líka að við höfum ekki notið stuðnings frá vinaþjóðum okkar, ekki einu sinni frá þeirri sem fer með atkvæði okkar í stjórn sjóðsins, fulltrúa okkar Norðurlandanna, en það er Svíþjóð sem fer nú fyrir Norðurlöndunum í stjórn sjóðsins.

Í Icesave-málinu hefur Svíþjóð reyndar hvorki komið okkur til aðstoðar sem forusturíki í Evrópusambandinu, eins og Frakkar gerðu þegar Icesave-deilan var í hámæli fyrir um ári, né heldur í stjórn sjóðsins svo mér sé kunnugt um.

Um þessa stöðu sagði hæstv. fjármálaráðherra í október í fyrra, þegar hann þá var utan stjórnar, að ef tengsl væru á milli lausnar Icesave-deilunnar og fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri það ekkert minna en fjárkúgun. Hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrir ári: Það er fjárkúgun ef tengsl eru á milli fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Icesave-deilunnar. Það voru engin smáorð. Hann sagði líka: Ef þetta er svona eru allar okkar verstu martraðir um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að rætast.

Nú hlýðum við á þennan sama ráðherra — ég vænti þess að hér séu einhver mistök við tímamælingu.

(Forseti (RR): Nei, það eru þrjár mínútur, hv. þingmaður.)

Já, allt í lagi. Ég hafði fengið rangar upplýsingar um ræðutímann.

Ég vildi ljúka máli mínu á því að rifja upp að þetta virðist allt saman vera gleymt og grafið, tengslin sem gerð voru fyrir ári og voru nefnd fjárkúgun og martröð (Forseti hringir.) eru núna sjálfsögð og eðlileg fyrirgreiðsla. Ég hlýt að kalla eftir því frá ríkisstjórninni (Forseti hringir.) hvað gert verður í tengslum við þetta, (Forseti hringir.) hvernig stjórnvöld hyggjast beita sér fyrir því að hörðum mótmælum (Forseti hringir.) verði komið fram af okkar hálfu þótt ekki væri nema fyrir milligöngu (Forseti hringir.) þess sem situr í stjórninni fyrir okkar hönd.