138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:08]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Ég er stundum fljótur að gleyma. Tilhneiging mín er stundum sú, eins og margra þeirra sem kljást við sína mannlegu tilveru, að vilja hlaupa á brott, hratt þegar mér verða á mistök, og vonast til þess að rykið setjist sem allra fyrst. Sem betur fer hef ég fengið að læra að slík viðhorf ganga ekki upp. Maður flýr ekki fortíð sína. Eina leiðin til að gera hana upp er að horfast í augu við hana og játa mistökin. Þetta virðist mér vera grundvallarlögmál sem fróðari spekingar en ég hafa komið auga á. Ég færi þetta í orð hér af þeim sökum að svo virðist sem sumir kjörnir fulltrúar hafi hlaupið í burtu frá fortíð sinni og kannist ekki lengur við eigin gjörðir. (Gripið fram í: Það er ráðherra.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þegar hv. þingmaður Sjálfstæðisflokks, Bjarni Benediktsson, talar um veru AGS hér á landi sem atlögu ríkisstjórnarinnar að sjálfstæði Íslands og þegar hann talar um niðurstöðuna í Icesave-málinu sem algera og fullkomna niðurlægingu finnst mér eins og Bjarni sé búinn að hlaupast á brott og fela sig í rykinu, (Gripið fram í: Hver skrifaði …?) búinn að ákveða að gleyma sínum eigin hlut eins og allflestir, ef ekki allir, sjálfstæðismenn. Þeir tala nefnilega í sífellu eins og engin sé þeirra ábyrgðin, eins og AGS og Icesave séu sérstakt áhugamál Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. En þeir vita betur, þeir vita vel hvað þeir gerðu í fyrravetur og þeir vita að núna sitja aðrir stjórnmálaflokkar í súpunni, og skrattanum er skemmt. Svo sannarlega.

Ég hafði vonast eftir því að gagnvart málum eins og AGS og Icesave gætu þingmenn úr öllum flokkum sameinast um að axla ábyrgðina, sameinast um þá staðreynd að við eigum afar fáa valkosti og enga góða. Ég hafði sérstakar væntingar til nýs formanns Framsóknarflokksins þegar kom að því að tala upp úr pólitískum skotgröfum og alveg sérstakar til Sjálfstæðisflokksins, einmitt vegna hans eigin aðkomu að málinu, bæði fyrir efnahagshrunið og eftir það í fyrrahaust. Mér varð ekki að þessari ósk minni. Skotgrafirnar eru algerar. Auðmýktin er engin. Og það versta er að hv. þm. Bjarni Benediktsson veit fullvel að enginn stjórnmálaflokkur hefði komist hjá því að leysa úr þessari flóknu nauðungarstöðu með samningum. Hann veit betur, þrátt fyrir stóru orðin. (Gripið fram í.)