138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt að umræðuefnið hér væri staða Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en það er kannski ágætt að rifja það upp að í sumar voru gerðar miklar breytingar á Icesave-samkomulaginu og þær hefðu ekki orðið að veruleika nema vegna þess að að því komu þeir stjórnmálaflokkar sem eru í stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn hafði þar mjög mikið fram að færa og skipti miklu máli í þeirri niðurstöðu sem þar kom fram. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta skipta miklu máli þegar menn benda hér í allar áttir á ábyrgð hinna og þessara. Ég veit ekki betur en að það hafi verið þannig í sumar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert akkúrat það, horfst í augu við fortíðina og tekið þau skref sem hann taldi rétt til (Gripið fram í.) að koma þessari ríkisstjórn til hjálpar í algjörlega ómögulegri för hennar í þessu Icesave-máli.

Á þær niðurstöður Alþingis hefur hins vegar ekki verið hlustað. Öllum þeim fyrirvörum sem Alþingi barðist fyrir í þrjá mánuði hefur verið hafnað. Það er niðurstaðan í þessu máli. Það er ágætt fyrir þá stjórnarflokka sem nú ráða ríkjum og horfast í augu við það, enda er sú ábyrgð þeirra og henni verður ekki dembt á aðra flokka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

En það er nú annað gagnvart þessum Alþjóðagjaldeyrissjóði. Það er alveg hárrétt að sjálfstæðismenn komu að því að hann kom hingað. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki sagt að hann eigi að fara héðan, alls ekki. Við höfum hins vegar sagt að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er og hefur verið núna undanfarna mánuði sé ástæða til að endurskoða aðkomu okkar og samkomulag við sjóðinn til að laga það betur að þeim veruleika sem við búum við nú.

Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum skuldum, stöðugt hækkandi skuldum, og því miður er þetta Icesave-samkomulag sem nú er í vændum þannig að það er veruleg hætta á því að skuldir þjóðarinnar verði okkur of miklar. Við þær aðstæður verðum við að skoða hvort samkomulagið sem við gerðum í fyrrahaust við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þurfi að endurskoða þannig að við getum staðið undir þessu og reist þessa þjóð við. Það hlýtur að vera okkar sameiginlega markmið í þessum sal og menn eiga ekki að benda í allar áttir þegar slík gagnrýni er sett fram. Hún er sett fram vegna þess að menn bera hag þessarar þjóðar fyrir brjósti. Það er verkefni okkar númer eitt, tvö og þrjú.

Ég verð að segja alveg eins og er að það verður ekki beðið með það að mótmæla þessu háttalagi Breta og Hollendinga gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við sjálfstæðismenn tókum það fram í minnihlutaáliti fjárlaganefndar í sumar að ástæða væri til að hefja rannsókn á því hvernig stóð á því að sjóðnum var beitt með þessum hætti.

Ég hvet ríkisstjórnina til að fara strax í að gera verulegan ágreining um það hvernig stendur á því að sjóðnum hefur verið beitt með beinum hætti. Það viðurkenna núna þessir viðsemjendur blygðunarlaust, að nú sé allt í lagi að fara í endurskoðun vegna þess að þeir séu búnir að fá sinn samning í höfn. Þessu verðum við Íslendingar að mótmæla. Við eigum að standa bein í baki gagnvart þessu og við eigum að mótmæla þessu. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að gera það vegna þess að það er nóg komið af þessu bogna baki í þessum sölum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)