138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:51]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar aðgerðir komi ekki of seint og ég held að þær komi ekki of seint. Ástæða þess að þetta tók tíma er auðvitað sú að þeir bankar sem við ræddum við þurftu að vera í standi til þess að taka viðskiptalegar ákvarðanir. Við lögðum nefnilega alltaf upp með að ríkið ætti ekki að bera kostnað af þessu verkefni. Það hjálpaði þegar búið var að skilja á milli gömlu og nýju bankanna í sumar og verðmeta eignirnar, þá voru bankarnir betur í stakk búnir til þess að taka ákvarðanir um hvað þeir teldu sig geta gert. Það var grundvallarforsenda af okkar hálfu að við ætluðum ekki að leggja þær byrðar á skattborgarana að borga þennan skuldbreytingarkostnað heldur yrðu bankarnir að vera tilbúnir að taka hann á sig. Þess vegna held ég að þó að við hefðum helst viljað að þetta lægi fyrir fyrr urðum við einfaldlega að bíða eftir því að við hefðum starfhæft bankakerfi áður en við gátum farið út í þessar aðgerðir.