138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[16:55]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum ágætu ummælum hv. þingmanns varðandi fortíðina. Ég held að það sé alveg rétt hjá honum að hér var æðibunugangur í lóðaframboði milli sveitarfélaga og skortur á sameiginlegu skipulagi sem ýtti mjög undir þennan vanda. Ég held að allir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafi talið sig geta einir út af fyrir sig leyst alla lóðaþörf höfuðborgarsvæðisins til lengri tíma litið. Það var auðvitað aldrei raunsætt. Við eigum að læra af þessari reynslu og koma á betra skipulagi á framboðin, því eftir sitjum við öll í tjóni og það er búið að byggja allt of mikið.

Ég er líka alveg sammála hv. þingmanni um að 90% lánin hjá Íbúðalánasjóði voru eftir á að hyggja ekki mjög skynsamlega útfærð hugmynd. Ég held að við verðum að horfast í augu við að við verðum að takmarka áhættu í lánveitingum. Þess vegna vil ég vekja athygli á að í 6. gr., sem felur í sér heimild til þess að við getum farið að ræða við bankana um einhvers konar endurfjármögnunarkerfi, er lögð sérstök áhersla á að lánstími og lánakjör tekinna og fjármagnaðra lána standist sem næst á þannig að áhættan verði lítil og líka að það verði reglur um hámarksveðsetningu og hámarkshlutdeild fjármálafyrirtækja í áhættu. Það er ekki hægt að búa til svona farveg þannig að bankarnir geti í reynd komið áhættunni yfir á þann sem aflar fjárins fyrir útlánin. Bankarnir sem hitta kúnnana eiga auðvitað að bera stærsta hlutann af áhættunni því þeir eru í beinu sambandi við þá.

Að síðustu varðandi skattstefnuna. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf að gæta hófs í skattlagningu. Það er mjög mikilvægt að við reynum að verja ráðstöfunartekjur heimilanna eins og kostur er á þessum erfiðu tímum. Hinu verður þó ekki vikist undan að skattar hafa hækkað. Síðan þurfum við að eiga betri samræður um það í góðu tómi. Ég náði ekki að svara hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um það mál áðan en ég er alveg tilbúinn að ræða allar útfærslur á hugmyndum sjálfstæðismanna um skattamál (Forseti hringir.) og tel að við eigum að eiga opnar og hreinskiptar umræður um það.