138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:02]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin laut að lækkun höfuðstóls. Frumvarpið greiðir fyrir lækkun höfuðstóls, greiðir fyrir því að fyrirtæki geti núvirt lán og breytt þeim og að sú núvirðing og lækkun höfuðstóls sem byggir á núvirðingu feli ekki í sér skattskyldan ávinning fyrir viðtakanda.

Hv. þingmaður spyr um fordæmi. Þetta er vissulega sú aðferðafræði við greiðslujöfnun sem búin var til árið 1985. Sá munur er þó á að í þetta skipti er sett hámarkslenging upp á þrjú ár. Í því felst í sjálfu sér tryggingin sem skuldarinn fær. Nú er það rétt sem hv. þingmaður segir að í umsögn með 5. gr. frumvarpsins kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtækin geri ráð fyrir afskriftum. Það er vegna þess að þau gera ráð fyrir því að efnahagsþróunin verði þannig að ekki reyni á það. Hitt er alveg ljóst að ef efnahagsástandið verður svo dapurt að það komi til þess að við getum ekki greitt neitt nema t.d. vexti af Icesave árið 2015 er öruggt að til afskrifta kemur. Þá er efnahagsástandið mjög dapurt. Þetta fer í raun bara eftir því. Ef efnahagsástandið verður mjög dapurt til langframa, og þannig eru t.d. svartsýnustu spár varðandi Icesave, eru verulegar líkur á að ekki verði greitt þar, á sama hátt og ef þær spár gengju eftir almennt í efnahagslífinu mætti fullyrða að það kæmi til afskrifta hér. Ef þessar almennu efnahagsforsendur ganga eftir sem Seðlabankinn hefur stillt upp, sem eru forsendur fyrir því að við munum ná t.d. að greiða Icesave (Forseti hringir.) — það eru þær forsendur sem liggja til grundvallar þessu mati fjármálafyrirtækjanna sem hv. þingmaður vísar til í umsögn við 5. gr.