138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:23]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. málefnalega ræðu og þakka honum sérstaklega fyrir samstarfið í aðdraganda þessa máls. Það er búið að vera mjög mikilvægt að geta átt hreinskiptin og einlæg samtöl um þetta flókna mál og fengið sjónarmið hans fram. Hann greindi afskaplega vel í ræðunni þau helstu sjónarmið sem lausnir í þessu máli þurfa að byggja á. Eitt af því sem hann nefndi var séreignarstefnan. Þar held ég nefnilega að skipti mjög miklu máli að við lærum af reynslu undanfarandi ára, sem ég rakti aðeins áðan í andsvörum, og drögum úr áhættunni fyrir lántakendurna og lánveitendurna þannig að áhætta verði minni af fasteignaviðskiptum, reynslan af þessari dýfu verði ekki sú að fólk hlífi sér einfaldlega við því að takast á hendur þá skuldbindingu að kaupa húsnæði.

Skuldavandinn er hárrétt hugsað vandamál hjá hv. þingmanni og auðvitað erum við að leita leiða til þess að taka á ósjálfbæra skuldavandanum. En þeim hluta skuldavandans sem er kljúfanlegur vísum við í gegnum þessa dýfu og vonumst til þess að forsendur breytist þannig að mögulegt verði fyrir okkur að greiða af lánunum. Ef launaþróunin verður hins vegar ekki með þeim hætti að það verði mögulegt er um að ræða viðvarandi skuldavanda sem við þurfum þá að grípa til afskrifta út af.

Að síðustu varðandi fyrirtækin eru þessar lausnir hugsaðar þannig að í framhaldinu fari af stað vinna svipuð þeirri sem þegar hefur átt sér stað varðandi heimilin milli fjármálastofnananna þar sem við, sem erum í ljósmóðurhlutverki af hálfu hins opinbera valds, reynum að leiða lausnirnar saman. Við erum að setja slíka vinnu af stað núna með það að markmiði að búa til skipulagt verklag fyrir meðferð skuldamála fyrirtækjanna. Ef ekki eru til fyrirtæki sem geta staðið í skilum með afborganir sínar og borgað fólki laun, er til lítils af stað farið í þessa vegferð.