138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:49]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þetta síðasta sem hv. þingmaður nefndi. Það er alveg rétt og er verkefni sem við þurfum að fara yfir. Það er mjög mikilvægt að menn ræði það í nefndinni við umfjöllun málsins.

Varðandi hitt atriðið sem lýtur að niðurfellingu skulda er forsenda þess að niðurfelling skulda er ekki skattskyld samkvæmt þeirri aðferðafræði sem hér er lagt upp með að gjaldþol sé ekki til staðar. Það er ekki raunverulega um að ræða eftirgjöf á öðru en því sem augljóslega tapast ef gengið er áfram og farið í þrotameðferð vegna þess að viðkomandi getur ekki greitt. Þess vegna er verið að gera greiða leið til þess að hægt sé að horfast í augu við veruleikann í staðinn fyrir að drösla fólki í gegnum rándýra og óþarfa gjaldþrotameðferð til að komast að eðlilegri niðurstöðu um að þarna er augljóslega ekki um gjaldþol að ræða, fólk getur ekki greitt. Það sem við síðan gerum er að greiða fyrir nauðsynlegum skuldbreytingum. Að því er varðar hitt, hvort mikilvægt sé að gefa eftir höfuðstól á þessum tímapunkti, er ég ekki sannfærður um að það sé rétt. Ég held einfaldlega að sú aðferð sem við förum hér sé skynsamlegri. Við erum að ákveða að fresta þeim vanda að hluta.

Hv. þingmaður velti þeirri spurningu upp hvort fólk gæti setið í gildru eftir einhver ár þegar laun hækka. Ég held að það sitji ekki í neinni gildru þá því það fer ekki hver einasta króna sem kemur inn í hækkandi launum til greiðslu skulda. Hins vegar er ljóst að tryggingin sem við gefum fólki er að sá höfuðstóll, sem í dag er ósanngjarn vegna þess að laun hafa lækkað, allt hefur hækkað og það hefur orðið þetta mikla misgengi milli launa og verðlags, verður ekki greiddur nema launaþróun gefi tilefni til þess. Hann verður ekki greiddur nema launin hækki síðan umfram þessa verðlagshækkun. Þá er líka bara sanngjarnt að hann verði greiddur og í sjálfu sér engin sérstök ástæða til að gefa eftir höfuðstólinn.