138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skuli ekki hafna flatri leiðréttingu höfuðstóls skulda og að hann skuli, eins og ég, gagnrýna það að í greinargerð fyrirliggjandi frumvarps skuli flatri leiðréttingu vera hafnað. Það er ekki í anda frumvarpsins sjálfs að hafna slíkri leiðréttingu. Ég fagna því enn fremur að hv. þingmaður hafi komið auga á það að það að hafa þriggja ára þak á lengingu lánanna er auðvitað flöt almenn aðgerð sem mun mjög líklega leiða til afskrifta í lokin, a.m.k. samkvæmt útreikningum sumra lífeyrissjóða. Þá er auðvitað viðbúið, og ég hnykki hér á spurningu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, að maður spyrji: Af hverju ekki að fara í þessar leiðréttingar núna? Það er engin tilviljun að menn eru að afskrifa lánasöfn í bönkunum núna við uppgjör þeirra. Menn vilja vita hvert raunverulegt virði lánanna er. Núna er viðbúið að lánastofnanirnar vilji ekki búa við þá óvissu að það sé einhver leyndardómur hversu mikið verður afskrifað í lokin af lánasafninu þeirra. Lánastofnanirnar munu jafnvel fara í það verkefni núna að reyna að meta það hversu miklar þessar afskriftir verða. Það getur verið snjallt pólitískt og sannarlega gott verkefni í efnahagslegu tilliti að reyna að styðja lánastofnanirnar í þessu, að reyna að meta raunverulegt virði þessara lána og bjóða þá upp á þessar afskriftir núna þannig að þær séu frá. Það getur vel verið að lánastofnanirnar vilji þetta. Við eigum að styðja það, og ég spyr hv. þingmann hvort hann geri það ekki.

Svo vil ég bara benda á það að leið okkar framsóknarmanna fól ekki í sér kröfu um að útgjöld yrðu úr ríkissjóði, heldur yrðu afskriftir sem yrðu við uppgjör bankanna nýttar (Forseti hringir.) til afskrifta á almennum lánamarkaði.