138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:58]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning. Ég held að svarið sé örugglega neitandi vegna þess að húsaleigubótakerfið okkar er ansi skynsamlega útbúið. Það er með mjög lágum þröskuldum þannig að þar er ekki mikill hvati, þarna myndast ekki mikið loft fyrir leigusalann til þess að éta. Það er líka mjög tekjutengt og tengt fjölskyldustærð. Ég held líka að reynsla síðustu tveggja ára eftir að bætt var umtalsvert í þetta kerfi og verulega lækkun leiguverðs í kjölfarið segi okkur jákvæða sögu. Svarið við því hvort þetta hafi leitt til hækkaðrar leigu er því neitandi, meira að segja fyrir hrunið voru ekki teikn á lofti um hækkandi leigu í kjölfar þess að framlögin í húsaleigubótakerfið voru hækkuð.