138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar við þingmenn munum nota daginn í dag og jafnvel morgundaginn til að búa okkur undir 1. umr. um það mikilvæga mál sem hér hefur verið lagt fram er ástæða til að kalla eftir og reyna að glöggva sig á þeim skoðunum sem þingmenn hafa, og stjórnmálaflokkar, á þeim fyrirvörum sem gerðir voru og samþykktir í þinginu í ágústmánuði og hvort það frumvarp og sú leið sem ríkisstjórnin er að fara rammist innan þeirra fyrirvara sem menn voru sammála um að gera í ágústmánuði.

Það slær menn þegar þeir horfa á þá stöðu sem virðist vera komin upp að gert er ráð fyrir því að vaxtagreiðslur muni alltaf koma til greiðslu af hálfu Íslands, sama hvort það er hagvöxtur eða ekki. Þegar við settum þessi skilyrði, fyrirvarana, var það til að tryggja að ef illa gengi á Íslandi, ef það væri lítill sem enginn hagvöxtur, mundum við ekki borga til Breta og Hollendinga. Í því tilviki sem væri 0% hagvöxtur væri ekki greitt.

Nú virðist það vera þannig, miðað við það sem fram hefur komið, að þessi fyrirvari sé ekki lengur gerður. Með öðrum orðum er sama hvort það er hagvöxtur á Íslandi eða ekki, sama þótt gangi illa á Íslandi, jafnvel þótt hagkerfið dragist saman, þótt við lendum í samdrætti, eigum við samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir að greiða alla áföllnu vextina. Og hvað þýðir það? Upphæðin sem um er að ræða, hinar stóru tölur sem falla á ríkið, er akkúrat vaxtagreiðslurnar. Við getum þannig staðið frammi fyrir því, verði það frumvarp samþykkt á Alþingi sem nú hefur verið lagt fram, að við göngumst undir það að borga þessa vexti sama hvernig árar. Það var akkúrat um þetta sem fyrirvararnir giltu. Ég tel að það sé heppilegt og áhugavert að heyra frá formanni þingflokks Vinstri grænna, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, hver afstaða Vinstri grænna er til þessa, (Forseti hringir.) hvort það sé mat þess flokks að þessi mikilvægi fyrirvari gildi.