138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil gjarnan ræða við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um fyrningu aflaheimilda.

Það kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, að það á að hefja innköllun aflaheimilda 1. september 2010. Hann tilkynnti þetta á fundi í Grafarholtinu og menn þar tóku kannski þessari tilkynningu með ró, en hins vegar má svo sem segja að í sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið ríki mikil taugaveiklun. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvort það sé rétt sem varaformaðurinn segir, að það eigi að hefja innköllun aflaheimilda 1. september. Honum til málsbóta má nefna að í stjórnarsáttmálanum segir að endurskoða eigi lög um fiskveiðar og, með leyfi forseta, „miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010“.

Þetta finnst mér einkar athyglisvert þar sem núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra virðist vera á harðahlaupum undan einmitt þessari grein í stjórnarsáttmálanum eins og frægt viðtal í Kastljósi sýndi mjög greinilega. Ég hef sem sagt áhuga á að heyra hvort þetta sé enn þá stefnan og hvort menn geri sér grein fyrir alvarleika þessarar ákvörðunar.

Hérna hefur mikið verið talað um Icesave og þær góðu fréttir að það muni fást svo mikið upp í kröfurnar, en nú er það þannig að Landsbankinn sem ríkið á 80% í er með 50% af öllum sjávarútveginum undir þannig að ríkið leggur núna 122 milljarða inn í bankann og ef farið verður í fyrningu aflaheimilda eins og boðað er í stjórnarsáttmálanum erum við hugsanlega að horfa fram á gjaldþrot bankans. Þá erum við ekki að tala um nein 90%.