138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[13:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 22. apríl gengu í gildi lög frá Alþingi sem gerðu það að verkum að kröfur innstæðutryggingarsjóðs á Landsbankann gamla frusu í krónutölu, voru reiknaðir yfir í krónur og eru síðan í krónutölu og vextir og gengishækkun á þeirri skuldbindingu er ekki forgangskrafa. Hins vegar bera eignir Landsbankans bæði vexti og gengisáhættu eða fá gengishækkun. Það þýðir að hann mun sífellt geta borgað meira og meira af þeirri skuldbindingu sem er föst í krónum. 90% er því engin furða. En barbabrellan felst í því að lán innstæðutryggingarsjóðs til að borga þetta bera bæði vexti og gengistryggingu frá síðustu áramótum og hækkar og hækkar. Það er það sem við erum að veita ábyrgð á þannig að gatið sem myndast á milli krónutölunnar hjá Landsbankanum og lánsins fellur á ríkissjóð. Ekki segja oftar í mín eyru að Landsbankinn geti staðið við 90% og að þetta verði allt saman gott mál.

Í öðru lagi: Þeir sem lesa lögin vita að vextir verða greiddir þó að það verði enginn hagvöxtur. Við getum lent í því að það verði enginn hagvöxtur og við þurfum að greiða vexti á hverju einasta ári, 15–50 milljarða. Háskólinn kostar 10 milljarða á ári. Þetta munum við borga, alveg sama þótt það verði enginn hagvöxtur og að við getum ekki borgað neitt. Þá er hætt við því að margir muni telja nauðsynlegt að virkja eins og mögulegt er og ganga á auðlindir landsins eins og mögulegt er af því að þá getum við ekki borgað og þá erum við vanskilafólk. Þetta er það sem börnin okkar, þau sem eru eins árs og tveggja ára munu borga því að þetta lán verður ævarandi ef það verður enginn hagvöxtur.