138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[14:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, það er nauðsynlegt að við nýtum nú vel tímann til að glöggva okkur vel á þessu áður en til 1. umr. kemur. Ég þykist skynja að það sé ákveðinn misskilningur í gangi hvað varðar eðli þess máls sem er til umræðu. Það er alveg augljóst (Gripið fram í.) að þegar við settum fyrirvarann í ágúst settum við hann til að tryggja það að Ísland þyrfti ekki að greiða af þessu ef það væri t.d. 0% hagvöxtur, þetta var öryggisákvæði. Það getur gerst hjá okkur eins og hjá öðrum að það verði ekki hagvöxtur, það getur jafnvel orðið samdráttur. Þess vegna settum við öryggisákvæði, frú forseti, og öryggisákvæðið sagði: Ef það er enginn hagvöxtur eru engar greiðslur.

Það sem breytist núna, og það virðist hafa farið fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, er að við eigum að greiða vextina sama hvernig árar. (Gripið fram í: Nei, …) Það kemur fram og ég vek athygli formanns þingflokks Vinstri grænna á að í greinargerð með þessu frumvarpi sem við munum ræða fljótlega stendur á bls. 10:

„Talið er líklegt að vaxtagreiðslur haldist innan greiðsluhámarksins.“ (Gripið fram í.)

Það er talið líklegt. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig að það muni aldrei gerast. Íslenska þjóðin getur ekki verið viss um að þannig fyrirvari hafi verið settur að það muni ekki gerast. Það er bara talið líklegt. Með öðrum orðum, fyrirvaranum sem var settur um að íslenska þjóðin þyrfti ekki að greiða þetta ef illa gengi, þ.e. að stilla saman hagvextinum og greiðslunum, hefur verið kippt úr sambandi. Það er það sem skiptir máli í þessu, fyrir utan það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði réttilega, það á að veita ábyrgð alveg út í það óendanlega. En það er þessi stóri efnahagslegi fyrirvari sem skiptir svo miklu máli og ég skora á hv. þingmenn að nýta tímann, (Forseti hringir.) sérstaklega þá sem hafa tjáð sig mjög gagngert um þessi mál, og skoða nákvæmlega hvað það þýðir sem á að leggja til á þinginu.