138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Flestum má vera kunnugt um að Landsvirkjun leggur grunn að miklum lífsgæðum okkar Íslendinga. Það hefur ætíð verið stefna Framsóknarflokksins, og er það enn, að standa vörð um fyrirtækið og hafa framsóknarmenn ætíð hafnað allri einkavæðingu þess. Landsvirkjun er sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins en allt þar til í nóvember 2006 áttu Akureyrarbær og Reykjavíkurborg einnig hlut í Landsvirkjun. Þau seldu þá hlutinn. Lög um Landsvirkjun eru nr. 42/1983 og í þeim er ákvæði um þessa skiptingu á milli sveitarfélaganna og ríkisins, en eftir 2006 á ríkið eitt Landsvirkjun. Það var einkennilegur samningur sem þá var gerður, það var ekki nóg með að þessi bæjarfélög seldu hlutinn í fyrirtækinu, heldur tryggir Landsvirkjun þeim skaðleysi til 1. janúar 2012. Einhverjar skuldbindingar hvíla enn á þessum sveitarfélögum sem Landsvirkjun fékk greiðslufrest á og verði greiðslufall skal Landsvirkjun vera skaðabótaskyld fyrir þessa aðila.

Eins og flestir vita hefur lánshæfismat Landsvirkjunar því miður fallið í ruslflokk, Landsvirkjun skuldar geysilegar fjárhæðir og hefur talan 400 milljarðar verið nefnd. Það stendur í fjárlagafrumvarpinu sem lagt er fram fyrir árið 2010 að ríkið ætli að koma með 25 milljarða inn í fyrirtækið árið 2010 þrátt fyrir að Landsvirkjun telji sig hafa greiðsluþol út árið 2011. Ég hef miklar áhyggjur af þessu því að Landsvirkjun stendur að grunnstoð okkar í samfélaginu, en síðustu daga og síðustu vikur hef ég spurt sjálfa mig hver raunverulegur eigandi Landsvirkjunar sé. Er það íslenska ríkið og íslenska þjóðin þar með eða eru það erlendir kröfuhafar? Landsvirkjun fetar þá sömu braut og íslensku bankarnir gerðu, að taka upp reikningsskilastaðla, að sprengja upp veðmat sitt með því að eignfæra bæði vatns- og jarðréttindi, jarðgæði, að því er virðist til þess eins að geta því miður tekið meiri erlend lán.

Það sem mig undrar samt mest í því hvað staða Landsvirkjunar er slæm er það að megnið af tekjum Landsvirkjunar er í erlendri mynt, eins og lánin eru líka að mestu leyti. Það er þá ekki þessi gengismunur sem er að fella Landsvirkjun, það er eitthvað allt annað, enda vil ég meina að árið 2003 hafi farið að halla verulega undan fæti hjá Landsvirkjun þegar sú ákvörðun var tekin að heimila Landsvirkjun með lögum að stunda líka fjármálastarfsemi. Landsvirkjun er grunnstoð okkar Íslendinga. Þetta er fyrirtæki sem fer með almenna hagsmuni okkar. Hvers vegna var opnað á það í lögum 2003 að Landsvirkjun, veitufyrirtæki okkar, fyrirtæki sem er búið að fá leyfi til að virkja og nota landið okkar og fallvötnin, fengi heimild til að leika sér með fé? Ég lít þetta mjög alvarlegum augum, sérstaklega í ljósi þess hvað fyrirtækið skuldar mikið og ríkið hefur gengið í ábyrgðir fyrir allar skuldbindingar fyrirtækisins. Við ætlum að ræða Icesave-samningana á morgun, himinháar skuldir, en svo kemur upp úr kafinu að skuldir Landsvirkjunar eru síst minni og ríkið hefur ábyrgst þær.

Annað sem angrar mig í þessari umræðu er að Eftirlitsstofnun EFTA skuli hafa gert athugasemd við þá litlu ríkisábyrgð sem veitt er fyrir heimild í fjárlögunum 2010 upp á þessa 25 milljarða og hefur Eftirlitsstofnunin gefið það út að greitt skuli hæfilegt ábyrgðargjald fyrir þá ríkisábyrgð. Þess vegna spyr ég fjármálaráðherra: Hvað er það há upphæð sem þarf að inna af hendi fyrst ríkið ábyrgist Landsvirkjun að fullu upp í 400 milljarða? Brjótum við ekki þar með í bága við þær reglur sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar bent okkur á?

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver raunveruleg staða Landsvirkjunar sé. Hver telur hæstv. fjármálaráðherra að sé raunverulegur eigandi Landsvirkjunar? Er það íslenska ríkið eða eru það erlendu lánardrottnarnir? Er Landsvirkjun tæknilega gjaldþrota eins og margt annað hér á landi?

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver er framtíðarsýn hans á stöðu Landsvirkjunar?