138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að segja megi að fjárhagsleg staða Landsvirkjunar sé góð í samanburði við velflest íslensk fyrirtæki, í raun og veru mjög góð í því ljósi séð að fyrirtækið hefur lokið fjárfestingarverkefnum sem það hefur staðið í meira og minna samfellt síðan 1995 eða þar um bil, í rúman einn og hálfan áratug. Það hefur ekki skuldbundið sig til að ráðast í nein ný verkefni sem með öðrum orðum þýðir að áhvílandi skuldir og tekjustraumar fyrirtækisins eru þá til staðar og hægt að skoða afkomuhorfur í því ljósi. Starfrækslumynt Landsvirkjunar er bandaríkjadollar og fyrirtækið hefur uppistöðu tekna sinna í þeirri mynt. Þetta byggir á og er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla frá árinu 2008. Þetta leiðir það af sér að fyrirtækið hefur ekki orðið fyrir neinum teljandi skakkaföllum vegna gengisbreytinga á íslensku krónunni. Fyrirtækið skilaði 47 milljónum dollara í hagnað á fyrri helmingi þessa árs og í lok júní var eiginfjárhlutfallið 31%, ívið hærra en það var í lok júní ári áður. Fyrirtækið á í sjóði um 90 milljónir bandaríkjadala og hefur aðgang að samningsbundnu veltiláni upp á 358 milljónir dala, sem reyndar hefur verið nýtt að hluta. Áætlanir Landsvirkjunar gera þar af leiðandi ráð fyrir að fyrirtækið geti mætt öllum skuldbindingum til ársloka 2011, jafnvel þótt erlendir lánsfjármarkaðir væru alveg lokaðir íslenskum aðilum á þessu tímabili, sem vonandi verður ekki.

Endurfjármögnunaráhætta Landsvirkjunar er fremur lítil. Félagið hefur kappkostað að dreifa afborgunum langtímalána yfir langt tímabil, upp undir 20 ár. Hvergi er um að ræða sérstaklega mikla endurfjármögnunarþörf á einstöku ári á þessu tímabili, þótt vissulega séu allháar greiðslur sem til falla á árinu 2011, en það telur fyrirtækið sig þegar ráða við og hafa tryggt sér að geta staðið við eins og áður sagði.

Það er rétt að hafa í huga að í lánasamningum Landsvirkjunar eru engin ákvæði um gjaldfellingar þó að lánshæfismatið sé breytt. Núverandi lán Landsvirkjunar eru ekki í neinni hættu og standa þrátt fyrir að lánsmat fyrirtækisins hafi verið lækkað. Augljóslega mundi það hins vegar hafa áhrif ef fyrirtækið leitaði eftir nýju fjármagni.

Fé frá rekstri nam rétt um 104 milljónum dollara á fyrri hluta ársins, en sem dæmi má taka nemur það nálægt hálfum áætluðum kostnaði við Búðarhálsvirkjun. Tekjustreymi félagsins er auðvitað gott. Fé frá rekstri, þetta fé, er það sem fyrirtækið hefur til að greiða afborganir eldri lána eða ráðast í nýjar fjárfestingar. Engu að síður er rétt að taka það fram, og engin ástæða til að draga dul á það, að fjárhagsstaða Landsvirkjunar er fremur veik í erlendum samanburði miðað við það sem gjarnan eru gerðar kröfur um til fyrirtækja af þessu tagi. Þar ræður mestu um að fyrirtækið hefur staðið nánast í óslitnum fjárfestingum síðan um miðjan síðasta áratug. Það hefur á þeim tíma u.þ.b. þrefaldað afkastagetu sína í raforkuframleiðslu, án þess að eigendur þess hafi lagt því til neitt eigið fé. Reyndar hafa arðgreiðslur verið hóflegar og í sumum tilvikum engar, en allar þessar miklu fjárfestingar hefur verið ráðist í án þess að fyrirtækið væri styrkt með auknu eigin fé.

Engu að síður fylgjast erlendir bankar og matsfyrirtæki grannt með fyrirtækinu. Það gerir fjármálaráðuneytið einnig. Ætla þessir aðilar, þ.e. fjármálaráðuneytið og Landsvirkjun, að eiga með sér þétt samstarf um m.a. skuldamál og skuldastýringarmál sem verða mikilvæg viðfangsefni okkar á komandi árum þar sem ríki, sveitarfélög og stórir aðilar eins og orkufyrirtækin þurfa að samræma sig og vinna vel saman.

Það er stefna fyrirtækisins að ráðast ekki í frekari stórverkefni eða stórfjárfestingar öðruvísi en að langtímafjármögnun þeirra á viðunandi kjörum miðað við arðsemi fjárfestinganna sem í hlut eiga sé fyrir fram tryggð. Það verður ekki tekin frekari áhætta hvað varðar eiginfjárstöðu fyrirtækisins að þessu leyti.

Því má svo loks við bæta að í vor gerðu ríki og fyrirtæki með sér sérstakan viðbúnaðarsamning þannig að til viðbótar því lausafé og því aðgengi að (Forseti hringir.) veltiláni sem ég nefndi hér áðan getur fyrirtækið hvenær sem er fengið frá ríkinu sérstaka viðbótarfyrirgreiðslu kæmi einhvern tímann til þess að á því þyrfti að halda í samræmi við þennan viðauka eða viðbúnaðarsamning.

Svo er það að sjálfsögðu (Forseti hringir.) ríkið eða íslenska þjóðin sem á Landsvirkjun og enginn annar.