138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárhagsstöðu og framtíðarhorfur Landsvirkjunar og ég tek undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að við þurfum að passa vel og huga að fjárhagsstöðu Landsvirkjunar. Ég tek einnig undir með hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann fór mjög vel yfir stöðu Landsvirkjunar. Það eru sömu upplýsingar og ég hef um eiginfjárhlutfall, eignir og annað. Eins er það þannig með Landsvirkjun, frú forseti, að allar þær framkvæmdir sem hún fer í eru gerðar með það að markmiði að fá eðlilega ávöxtun.

Þá langar mig hins vegar, af því það er búið að fara mjög vel yfir fjárhagsþáttinn, að koma að því sem heitir kannski framtíðarhorfur. Ég held að framtíðarhorfur Landsvirkjunar byggist á því trausti sem við stjórnvöld búum Landsvirkjun. Ég tel að aðgerðir ríkisstjórnarinnar núna, bæði hvað varðar úrskurð á Suðvesturlínu og þessum orkusköttum, grafi undan trausti Landsvirkjunar, framkvæmdin sem þar er hent bara inn í umræðuna án þess að ræða við nokkurn einasta mann og þær afleiðingar sem þær valda okkur núna og við höfum orðið vör við. Það er hægt að fara mörgum orðum um það og síðast í blöðunum í gær var talað við Einar Þorsteinsson hjá Elkem þar sem hann lýsti því yfir að það verkefni sem þar væri fyrir höndum, sem gæti skapað þúsund störf, kannski 350 varanleg störf inn á það svæði, væri sennilega í hættu. Það er þetta sem ég held að við þurfum að einblína á, framtíðarhorfur fyrirtækisins. Það spilar nefnilega alveg með framtíðarhorfum þjóðarinnar.

Ég verð að segja, frú forseti, að eftir að hafa fylgst með umræðunni um þennan orkuskatt verð ég sífellt meira og meira hissa. Það var haft eftir hæstv. iðnaðarráðherra í blöðunum í morgun að hún er að sjálfsögðu uggandi yfir þessu, en þá kom fram í máli hennar í viðtali í blöðunum að í þessum orkuskatti væri auðlindagjald á sjávarútveginn og annað. En, frú forseti, það er ekkert inni í þessum skatti þannig að ég held að það væri gott fyrir a.m.k. hæstv. ríkisstjórn að fara að lesa fjárlagafrumvarpið, (Forseti hringir.) þótt ekki væri nema fyrstu blaðsíðurnar, þannig að við sendum ekki svona röng skilaboð sem draga (Forseti hringir.) og grafa undan trúverðugleika okkar hvað þessi mál varðar.