138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er við hæfi að ræða stöðu Landsvirkjunar eins og reyndar annarra orkufyrirtækja hér á landi nú um stundir. Þau eru mjög skuldsett eins og það heitir. Öll íslensk orkufyrirtæki hafa framkvæmt á síðustu árum, og ekki síst á síðasta áratug, fyrir lánsfé. Annars staðar, eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, hafa eigendur lagt opinberum fyrirtækjum til eigið fé. Það hefur aldrei verið gert á Íslandi og í raun hefur fyrirtækjunum verið búinn umbúnaður einkamarkaðarins um leið og þau eru í ríkiseigu. Þau eiga að vera bakhjarlar og gullhænur og um þau þarf að standa vörð, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir orðaði það, en um leið hafa þau verið send út á lánsfjármarkaðinn, ekki síst til þess að verða við kröfum stjórnvalda og stjórnarstefnu um tilteknar framkvæmdir.

Stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun eins og allir vita, er algjörlega framkvæmd fyrir lánsfé. Nú þarf að greiða af þeim lánum. Auðvitað tekur það í. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði mun fyrirtækið geta staðið í skilum a.m.k. til ársloka 2011, og það er vel, en af þessari staðreynd má kannski álykta sem svo að þessar risaframkvæmdir eru allar fyrir lánsfé og — ég ætla að leyfa mér að segja það — „óskabarn Framsóknarflokksins“, flokks hv. málshefjanda. Það er ekki að ástæðulausu að Landsvirkjun skuldar þetta stórfé. Það er ekki að ástæðulausu að önnur orkufyrirtæki eru jafnskuldsett. Það verður auðvitað að setja það í samhengi hvenær þessar ákvarðanir voru teknar og hvaða rekstrarumhverfi (Forseti hringir.) þessum fyrirtækjum hefur verið búið og hvernig það síðan rímar saman (Forseti hringir.) við stefnu stjórnvalda til skamms tíma.