138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

fjárhagsstaða Landsvirkjunar og framtíðarhorfur.

[14:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir í reikningum Landsvirkjunar fyrir síðasta ár að fyrirtækið tapaði 40 milljörðum á því ári sem var algjör viðsnúningur frá árinu þar á undan þegar það skilaði 460 millj. kr. hagnaði. Fjármagnsgjöld á árinu 2008 hjá Landsvirkjun námu 75 milljörðum kr., aðallega vegna orkusölusamninga sem tengdir eru álverði. Langstærsti hluti orkusölu Landsvirkjunar, upp undir 80%, fer til stórnotenda, þ.e. til stóriðjunotkunar. Það liggur því einhvern veginn ljóst fyrir, miðað við ummæli fjármálaráðherra hér áðan um gengistap, sem virðist ekki vera stór hluti af því tapi sem var í fyrra, að orkusala til stóriðju skili fyrirtækinu ekki miklu. Ásamt öðru undirstrikar þessi staðreynd hve áhættusamt það getur verið að binda svo stóran hluta orkusölunnar til svo fárra notenda í svo einhæfum rekstri sem hér um ræðir, frekar en reyna að skjóta fleiri og tryggari og fjölbreyttari stoðum undir rekstur stofnunarinnar og orkusölunnar. Ég held að við ættum öll að hafa það í huga, í þeirri umræðu sem við erum í núna um sífellt meira af svo góðu — þ.e. að auka frekar sölu til stórnotenda heldur en skjóta frekari stoðum undir fyrirtækin.

Ég velti sömuleiðis fyrir mér hvort rétt væri að kanna kosti þess að aðskilja algjörlega orkusölu til stóriðju annars vegar og til almennrar notkunar hins vegar til að draga úr áhættunni sem greinilega er uppi varðandi sölu til stóriðju og skapa þannig ekki hættu og setja í óvissu raforkusölu til almennrar notkunar og minnka áhættuna í því. Ég velti því svona upp hvort hægt sé að kanna þá kosti.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu Landsvirkjunar og þeirri umræðu sem virðist vera hér í þingsölum um að framtíðarhorfur fyrirtækisins felist nánast eingöngu í því að selja raforku til stóriðju, sem fyrirtækið (Forseti hringir.) hagnast ekki á.