138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[14:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að hrósa þingmönnum Framsóknarflokksins fyrir að leggja fram þetta plagg í dag vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við sem hér sitjum leitumst öll við að finna leiðir til að leysa skuldavanda bæði heimila og fyrirtækja. Þessi vinnubrögð eru því til fyrirmyndar sem hér fara fram.

Eigi að síður langar mig að beina nokkrum spurningum til hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, aðallega varðandi það hvað þessi aðgerð mundi kosta. Nú fór hv. þingmaður yfir það að þetta yrði allt tekið af afskriftareikningum bankanna. En er það rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn telji að enginn kostnaður komi til með að falla á ríkið við slíka aðgerð? Ef einhverjar tölur liggja fyrir væri ágætt að fá þær fram.

Jafnframt væri ágætt að fá fram hlutfall þeirra heimila sem þessi aðgerð mundi ná að fullnægja þörfum þeirra fyrir aðgerðir, þ.e. þessar almennu aðgerðir — hversu mörgum heimilum mun það koma til bjargar sem þurfa ekki að fá frekari aðstoð? Það sem í máli þingmannsins kom fram að jafnframt þyrfti að fara í sértækar aðgerðir, þá er náttúrlega augljóst að það þarf þá að leggja fram einhverjar aðgerðir sem taka á þeirra vanda og mjög þarft að mat þingflokks Framsóknarflokksins komi fram á því hvert það hlutfall er.

Síðan væri ágætt að fá fram hjá þingmanninum, ef það liggur fyrir, í hverju slíkar sértækar aðgerðir mundu felast. Af því ég er þess fullviss að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur velt því fyrir sér í þessari vinnu, þar sem þetta tengist óneitanlega.