138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin, sem voru ágæt. Ég veit af eigin raun hvernig er að vera í vinnu sem þessari án þess að hafa allar upplýsingar á hreinu frá ráðuneytum varðandi tölur o.s.frv. Það er náttúrlega ekki hægt að fara alla leið varðandi útreikninga en gott að gera sér einhverja hugmynd um þá.

Ég vil nota tímann í seinna andsvari mínu til að varpa þeirri spurningu fram hvort það sé rétt skilið hjá mér að þessi þingsályktunartillaga taki til allra skulda? Er þarna átt við húsnæðislán, bílalán, neyslulán o.s.frv. eða hefur það verið afmarkað sérstaklega?

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að flokkarnir sem sitja á þingi og þeir alþingismenn sem hér sitja séu búnir að átta sig á því að það sé þörf á að grípa til aðgerða vegna þess að sú var einfaldlega ekki staðan á sumarþinginu. Ég man eftir því að hafa setið og horft á umræður um skuldastöðu heimilanna þar sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að ekki væri þörf á að fara í aðgerðir sem þessar. Þannig að það sú vinna sem bæði Framsóknarflokkurinn og Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til er gríðarlega mikilvæg, sem og þingsályktunartillaga sjálfstæðismanna frá því í sumar varðandi m.a. skuldastöðu heimilanna. Þessi vinna hefur skilað þeim árangri að félagsmálaráðherra er þó búinn að leggja fram þetta frumvarp sitt sem var flutt í gær, einfaldlega vegna þess að það var þrýstingur og samstaða víðast hvar í samfélaginu um að þetta þyrfti. Tillaga okkar sjálfstæðismanna, eins og hv. þingmaður kom inn á, gengur út á að við setjumst saman að borðinu til þess að útfæra lausn. Ég hrósa þó framsóknarmönnum enn og aftur fyrir að koma með eina tillögu vegna þess að hún hrinti af stað ákveðinni umræðu.

Þetta var einfaldlega spurningin og ég vonast til þess að hv. þingmaður geti svarað henni.