138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis. Ég tel reyndar að með nýlegu frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra sé að einhverju leyti viðurkennt að um forsendubrest hafi verið að ræða, þ.e. ef ekki verði leiðrétting á núverandi ástandi komi til afskrifta og það verulegra afskrifta.

Varðandi greiðsluvilja held ég að stemmningin í þjóðfélaginu skipti líka máli. Ég held að við ættum að líta okkur nær sem störfum á þessum vettvangi, því ef við tölum jákvætt og förum að tala aftur stemmningu í þjóðina getum við haft áhrif á hvernig henni líður. Ég held að við ættum öll að íhuga að nálgast hlutina með jákvæðum hætti.

Frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra verður tekið til efnislegrar meðferðar og ég á von á því að félags- og tryggingamálanefnd komi fram með ákveðnar hugmyndir um betrumbætur eða endurskoðun á ákveðnum þáttum og það er vel. Vonandi verður það gert með málefnalegum hætti eins og við munum vonandi nálgast þetta mál í efnahags- og skattanefnd.