138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:25]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir hvert einasta orð hv. þm. Þórs Saaris í þessu andsvari hans. Þetta fer að verða meðsvar, eins og einhvern tímann var rætt hérna, þegar maður er svona sammála. Ég held einmitt að gagnsæið sé gullna reglan númer eitt, tvö og þrjú. Spurningin þegar kemur að sölu þessara eigna er hvort hægt væri að setja upp einhvers konar sameiginlegan — eða svona markað þar sem lægi fyrir hvaða eignir er búið að taka yfir og hvaða eignir eru til sölu.

Dæmi um þetta er t.d. Byggðastofnun. Byggðastofnun hefur allar sínar eignir á vefsíðunni þannig að hver sem er getur alltaf farið inn á vefsíðu Byggðastofnunar og séð hvaða eignir hún er tilbúin að selja. Ég tel þetta skipta geysilega miklu máli. Við sjáum bara þegar við ræðum þessa þingsályktunartillögu hvað það er margt undir. Ég held einmitt að mjög áhugaverðar umræður og vinna geti farið fram núna innan efnahags- og skattanefndar þegar málinu verður vísað þangað í lok umræðunnar.