138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við enn og aftur að ræða málefni heimilanna og ekki að ástæðulausu. Við höfum talað fyrir því máli sem hér er flutt allt frá því í febrúar á þessu ári og bent á mikilvægi þess að farið yrði í almennar aðgerðir til þess að koma heimilum landsins á réttan kjöl. Því miður höfum við talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda á hverjum tíma. Reyndar var fyrst reynt að fá minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til þess að skoða þessa hluti og síðan núverandi ríkisstjórn sömu flokka. Lítið hefur gengið. Þrátt fyrir að fleiri og fleiri hafi tekið undir þennan málflutning og mikilvægi þess að farið verði í almenna leiðréttingu — nota bene, afsakið slettuna, með almennri leiðréttingu. Það kom m.a. fram í ágætri ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams að í raun er komin viðurkenning á því að það hafi orðið forsendubrestur í samfélaginu. Þegar forsendubrestur verður kemur hann hlutfallslega jafnt við alla sem hann snertir á annað borð. Því eru sterk rök fyrir því að fara í almenna leiðréttingu hjá þeim sem lentu í því að lán þeirra tóku stökkbreytingum, eins og gjarnan hefur verið sagt.

Fram hafa komið jákvæð merki eða jákvæðar vísbendingar frá hæstv. félagsmálaráðherra á síðustu vikum um að það þurfi að fara í almennar aðgerðir. Hér er lögð fram og er til umfjöllunar í þinginu ákveðin tillaga sem felur í raun í sér frestun á vandanum, frestun á greiðslum. Það er vissulega gert ráð fyrir — ég vil leggja áherslu á það, gert ráð fyrir — að greiðslubyrði lækki við þetta en eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna, m.a. ágætri ræðu hv. þm. Þórs Saaris, er margt í þessu sem er hægt að setja spurningarmerki við, t.d. hvernig skipt er á einni vísitölu fyrir aðra.

Þetta er skref í rétta átt en ég tel að það þurfi að ganga mun lengra því í þessum tillögum er í raun gert ráð fyrir að þeir sem skulda borgi sínar skuldir í topp. Einhvern tímann hefði nú verið talið ósköp eðlilegt að menn borguðu sínar skuldir í topp og eðlilegt að halda því fram í venjulegu árferði. Þetta er þó ekkert venjulegt ástand, þeir atburðir gerðust sem einstaklingar og fyrirtæki réðu ekki við og því er það sanngirnismál að okkar mati og margra annarra að farið sé í þessa almennu leiðréttingu.

Við verðum líka að átta okkur á því að þegar ríkisstjórnin sem þá sat ákvað að tryggja sparifé þeirra og setja fjármuni inn í peningamarkaðssjóði eða hvað menn gerðu — þegar sú ákvörðun var tekin var það viðurkenning á því að það þurfti að verja eignir fólks. Mjög margir, og ég leyfi mér að segja flestar fjölskyldur á Íslandi, eru með sitt sparifé bundið í húsnæði sem búið er að veðsetja, taka lán fyrir og annað slíkt. Nú hefur það gerst í kjölfar þessa efnahagshruns að eignir hafa lækkað í verði. Þar af leiðandi hefur spariféð minnkað þegar eignin lækkar í verði. Lánin hins vegar hafa ekki lækkað að verðgildi, þau eru enn þá há og hafa hækkað mjög hratt, bæði vegna gengishruns og verðbólgu. Enn og aftur koma fleiri rök sem hníga í þá átt að mikilvægt sé að fara í leiðréttingu á þessum skuldum. Við getum ekki sagt að mínu viti við einn hóp sparifjáreigenda sem getur talið sitt sparifé í krónum og aurum að það eigi að hjálpa þeim, bjarga þeim, en við annan hóp sparifjáreigenda sem hefur fest sitt sparifé í húsum eða eignum að sá hópur eigi ekki að fá neina vörn í þessum ósköpum.

Ég er ekkert hissa á því að fjármálafyrirtækin hafi tekið nokkuð vel í þá tillögu sem ráðherrann hefur lagt hér fram og er til umfjöllunar vegna þess að í greinargerð með frumvarpinu í skýringu á 5. gr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er mat fjármálafyrirtækja að ólíklegt sé að eitthvað standi eftir af lánum í lok lánstímans þrátt fyrir greiðslujöfnun.“

Þetta þýðir að lánsfyrirtækin, bankarnir, telja að þeir sem skulda verði hvort sem er búnir að borga þetta allt í topp, að það sé engin áhætta fyrir þá að segjast ætla mögulega, hugsanlega að afskrifa. Það er heldur ekkert í hendi með hvaða hætti það verður gert.

Okkar tillaga, eins og margsinnis hefur komið fram, gerir ráð fyrir leiðréttingu á skuldum. Við höfum líka ítrekað sagt að við séum opin fyrir því að ræða allar útfærslur á þeirri leið, hvort sem það er þak eða önnur prósentutala. Við viljum að þetta verði skoðað ofan í kjölinn og rætt. Ég treysti því að hv. efnahags- og skattanefnd taki þetta til alvarlegrar skoðunar og ég vil líka skora á nefndina að sjá til þess að til hennar komi þeir aðilar sem hafa útfært tillögur í þessa veru.

Menn hafa spurt og velt fyrir sér hvaða kostnaður gæti fallið á ríkissjóð út af þessu. Það má alveg velta því fyrir sér hvort það geti ekki verið sanngjarnt að ríkissjóður taki á sig hluta af mögulegu tapi sem kann að verða af þessu. Það má líka spyrja sig hvort það sé ekki sanngjarnt að lífeyrissjóðirnir taki líka ákveðinn hluta á sig af mögulegu tapi því allir þessir aðilar bera einhverja ábyrgð eins og aðrir á því ástandi sem hér er. Það er ekki nóg að verja þá sem eiga krónur og aura í fjármálastofnunum og bönkum eða standa vörð um verðtryggingu eins og grimmir varðhundar, líkt og sumir virðast gera. Menn verða líka að axla ábyrgð á hinni hliðinni.

Það hefur komið í ljós og var upplýst hér áðan og í viðskiptanefnd ef ég man og veit rétt, að eignasöfn eða hvað á að kalla þetta, úr gamla Landsbankanum voru flutt yfir í þann nýja með 50% afföllum. Það má því spyrja sig hvers vegna hluti af þessum afskriftum sé ekki látinn ganga til þeirra sem skulda í íbúðum annars staðar. Við vitum að í þessum pakka er verið að afskrifa skuldir fyrirtækja. Það er ekkert leyndarmál. Það hefur komið fram í ræðum og riti.

Lykilatriðið í þessu öllu saman er síðan að með því að skapa svigrúm til að fleiri geti greitt sínar skuldir eru meiri líkur á því að hagkerfið komist fyrr af stað, að hér verði velta í samfélaginu og fólk geti aftur framkvæmt og skapað þá veltu sem nauðsynleg er. Ég legg því þunga áherslu á að þetta mál, þessi tillaga, fái efnislega og vandaða meðferð í efnahags- og skattanefnd.

Við fluttum þessa tillögu eins og áður hefur komið fram í vor. Það spurðist lítið til hennar í sumar. Á því kunna að vera skýringar en ég held að engin afsökun sé fyrir því að nú verði þetta ekki tekið föstum tökum. Ég vona að þetta verði skoðað á allra næstu dögum á fundum nefndarinnar því við verðum líka að átta okkur á því að fyrir marga er tíminn í rauninni búinn. Fyrir marga er orðið of seint að fara í almennar aðgerðir, meira að segja aðgerðir eða tillögur hæstv. félagsmálaráðherra eru of seint fram komnar fyrir mjög marga. Þess vegna legg ég áherslu á að þetta verði unnið hratt því enn þá held ég að sé hægt að koma í veg fyrir að hér verði algjört kerfishrun.