138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[15:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka framsóknarmönnum fyrir að hafa lagt fram þetta gagnmerka mál. Ég hef verið einn af baráttumönnum þess að gerð verði einhvers konar höfuðstólsleiðrétting á húsnæðislánum á Íslandi í kjölfar forsendubrestsins sem varð sl. haust. Núna hafa komið fram aðgerðir sem félagsmálaráðherra hefur kynnt og það er mjög gott fyrsta skref. Þær miða að því að lækka greiðslubyrði húsnæðislána en eftir stendur skuldavandinn vegna þess að það á ekki að færa niður höfuðstólinn heldur fer raunverulega sú upphæð sem eftir stendur þegar greiðslubyrðin er lækkuð inn á biðreikning og verður síðan greidd til baka með hefðbundnum hætti, verðtryggt, með vísitölu sem endurspeglar kaupmáttarþróun í landinu. Þá mun sitja eftir, eins og ég segi, þessi stóri höfuðstóll sem mun draga greiðsluvilja úr heimilum og magna upp það vonleysi sem fólk stendur frammi fyrir ef ekkert verður að gert.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Liggja fyrir tölur um hversu mikið skuldir heimilanna hækkuðu vegna verðbólguskotsins, vegna gengissigsins og hruns bankanna sl. haust?