138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það varð ákveðinn forsendubrestur hjá mjög mörgum. Margir misstu vinnuna, aðrir töpuðu hlutafé í stórum stíl, miklum upphæðum, einstaklingar, aldraðir. Og sumir töpuðu sparifé, sumir töpuðu í séreignarsjóðum o.s.frv. Það varð forsendubrestur. Lán hjá sumum ruku upp, þannig að sumir sem eru með gengistryggð lán sérstaklega, standa frammi fyrir óleysanlegum vanda. Það er forsendubrestur, ég er ekki að hafna því. En það að 80% heimilanna eru ekki í vanda þrátt fyrir þennan forsendubrest og það eru 45% sem eru að leggja fyrir, þeir eru sko örugglega ekki að gera það með því að ... (Gripið fram í.) 45% eru örugglega ekki að leggja fyrir með því að fresta greiðslum á lánum, það væri afskaplega heimskulegt. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður haldi að almenningur hugsi svo heimskulega, því hann borgar dráttarvexti á skuldunum sem hann frestaði, en hann fær miklu minni vexti af því sem hann leggur fyrir. Þannig að það væri bara heimskulegt.

Vandinn er sá að við erum með sem betur fer tiltölulega lítinn hóp sem er í verulega miklum vanda, sem hefur lent illa í þessum forsendubresti, það eru kannski 10% og við eigum að einbeita okkur að því en ekki lækka skuldir hjá öllum, líka hjá þeim sem geta vel borgað. Það er það sem við stöndum frammi fyrir og þetta má ekki kosta of mikið.

Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns, ég er búinn að hlusta á hana áður. Erlendar rannsóknir hafa sýnt eins og kemur fram hérna í greinargerðinni að niðurfærsla skulda undirmálalána sýni að lækkun á höfuðstól að lágmarki 20% leiði til þess að fleiri skuldarar standa í skilum. Auðvitað. En þetta eru ekki undirmálslán á Íslandi. Það eru 80% sem eru ekki í vanda. Það eru 10% sem eru virkilega í vanda. Við erum að bera saman allt, allt aðra stöðu. Og þó við mundum lækka skuldir um 20%, þá eru eftir sem áður einhverjir sem ekki standa í skilum, sérstaklega sem skulda hundruð milljóna.