138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem allur þingflokkur framsóknarmanna leggur fram og það í þriðja sinn. Þetta er tillaga um að afskrifa af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja. Tillagan var lögð fram eftir bankahrunið, fyrir ári síðan. Þá leituðu allir stjórnarflokkar eftir þeim leiðum varðandi það hvernig væri hægt að koma til móts við skuldafjötra heimilanna. Framsóknarflokkurinn fékk talsverðan fjölda efnahagssérfræðinga til þess að ráðleggja sér um hvernig væri hægt að halda á því máli og útbjó nokkuð umfangsmikið skjal sem voru efnahagstillögur okkar. Þær voru unnar fyrst af efnahagssérfræðingum og síðan voru þær teknar til umræðu í flokknum og skoðaðar betur og útbúnar í skjali. Ein þessara tillagna var sú er hér um ræðir, þ.e. þessi svokallaða 20%-leið, hún er ein af mörgum. Þessi tillaga fékk mjög mikla umfjöllun, enda er hún að okkar mati mjög mikilvæg.

Í kosningabaráttunni var nokkuð flókið í upphafi að útskýra þessa leið. Það er nú þannig að þegar maður kemur fram með eitthvað nýtt þarf stundum að verja talsverðum tíma í að koma því á framfæri hvað er um að ræða. Ef það tekst ekki á 30 sekúndum þá vandast nú málið. Í upphafi var því nokkuð erfitt að útskýra út á hvað þessi leið gengi og talsverður misskilningur í gangi. En þá var brugðið á það ráð að nýta nýjustu tækni og útbúa myndband og það fór t.d. á Youtube og fjöldi manns skoðaði það. Og smátt og smátt skeði hið skrýtna að mínu mati, maður er nú búinn að vera lengi í pólitík og veit hvað er erfitt að koma nýjum hugmyndum á framfæri og útskýra þær til hlítar þannig að fólk skilji, en það skeði. Fólk fór að skilja þessa tillögu. Það var mjög gaman í kosningabaráttunni að fara um og átta sig á því að fólk var farið að tala um þessa leið og það skaut hana ekki niður eins og sérstaklega vil ég segja Samfylkingin gerði, hún skaut þessa tillögu niður alveg strax og talaði mjög hart gegn henni, en við gáfumst ekki upp og reyndum að útskýra hana og fólk var farið að meðtaka út á hvað hún gekk.

Við getum kannski skipt þjóðinni í þrjá hópa og þetta hafa nú þingmenn heyrt. Það er hópurinn sem skuldar svo mikið að það skiptir kannski engu máli hvað hann fær mikla leiðréttingu skulda, hann mun ekkert rísa undir þeim hvort eð er. Síðan er það stóri hópurinn sem með aðstoð getur komist í gegnum sínar skuldir með t.d. þessari aðferð, að við leiðréttum 20% höfuðstól lána. Loks er það hópurinn sem faktískt þarf ekki beint á þessu að halda, sem ég heyri að hv. þm. Pétur Blöndal gerir hér að umtalsefni. Í tillögum okkar fékk sá hópur líka 20% leiðréttingu, enda hafði hann alveg lent í sama áfallinu og aðrir, það er alveg sami forsendubresturinn hjá þeim hópi og hjá öðrum. En af hverju á hann þá að fá þessa leiðréttingu? Það kann að hljóma óréttlátt í fyrstu en hugmyndafræðin var sú að þessi hópur, ásamt þá öðrum sem fá leiðréttingu, mundi halda uppi neyslunni þannig að ekki yrði svo gífurlega mikill samdráttur í einu stökki eins og var. Með þessu átti að reyna að halda í störfin og tryggja áfram eðlilegt efnahagsástand.

Þetta var reynt að útskýra og fólk fór að átta sig á þessu. Undir lokin, að minnsta kosti í mínu kjördæmi og ég sé að hér eru fleiri þingmenn úr því kjördæmi, þá talaði fólk langmest um þessa leið við mann, þetta mál, en svo var líka talsvert rætt um ESB-málið. Önnur mál komu þar á eftir að mínu mati þegar maður var að ganga á milli fyrirtækja og hitta fólk fyrir kosningarnar.

Það voru líka önnur öfl sem tóku mjög vel í þessar hugmyndir framsóknarmanna. Ég vil nefna hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson sem hefur komið hér upp í andsvörum fyrr í dag. Hv. þingmaður tók mjög vel í þessar hugmyndir og gerði þær að vissu leyti að sínum og fór í Kastljósið og ræddi mjög jákvætt um þær. Ég vil líka nefna hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem tók vel í þessar tillögur og var reyndar með aðeins öðruvísi hugmyndir um hvernig ætti að útfæra svona skuldaleiðréttingu, en látum það nú vera. Þetta var mjög áþekk hugmyndafræði. Svo vil ég nefna líka einn mann sem hefur nú alltaf verið talinn mikill samfylkingarmaður, það er Eiríkur Bergmann. Hann tók líka undir þetta í opinberri orðræðu. Síðan voru nokkrir háttvirtir sjálfstæðismenn sem tóku vel í þessar hugmyndir framsóknarmanna. Þannig að það má segja að það hafi verið tekið undir þessa hugmyndafræði úr mörgum áttum. Við viljum gjarnan þakka fyrir það að þessu var vel tekið.

Ríkisstjórnarflokkarnir skutu niður þessa hugmyndafræði og hafa margoft sagt að þetta sé of langt gengið og þetta kosti nokkuð mikið o.s.frv. og ég ætla ekkert að fara að útskýra það neitt nánar hér, menn þekkja þá orðræðu.

Með harðfylgi, bæði framsóknarmanna og að mínu mati annarra, þá eru menn farnir að átta sig betur á raunveruleikanum. Nú hafa ríkisstjórnarflokkarnir lagt fram mál sem er nú til meðferðar í hv. félags- og tryggingamálanefnd, þar sem verið er að gefa svolítið eftir og er það vel. Það er alla vega skref í áttina. Það er hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Árni Páll Árnason sem hefur lagt það mál fram, eftir talsverð samráð við aðra flokka. Ég vil undirstrika að það er mjög jákvætt að haft sé samráð við aðra flokka. Ég veit að talsvert samráð var haft við hv. þm. Guðmund Steingrímsson úr Framsóknarflokknum, þannig að ég held að það sé talsvert í áttina hvernig þetta er unnið, þó við teljum að ekki sé nógu langt gengið í þeim tillögum. Það er verið að létta greiðslubyrðina jú, það er vissulega rétt, en skuldavandinn stendur eftir, hann svona hlunkast aftur fyrir, það lengist í honum, fer á biðreikning svokallaðan. Þannig að segja má að greiðsluviljinn minnki að einhverju leyti. Ég vona samt að fólk gefist ekki upp með að greiða í mótmælaskyni, ég vona að svo fari ekki. Ég tel að allir eigi nú að greiða sínar skuldir eins og þeir geta, þó að mönnum finnist afar óréttlát það ástand sem er hérna uppi í samfélaginu í dag.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa líka komið talsvert að þessum málum. Ég vil nýta tækifærið hér og þakka þeim fyrir þeirra málflutning.

Ég vil nota aðeins af mínum tíma í þá umræðu að það var rætt um að við þyrftum að skipta um mynt. Hv. þm. Magnús Orri Schram kom hér í pontu áðan og auglýsti það sérstaklega að hann væri eini samfylkingarmaðurinn á svæðinu en ég sé að annar samfylkingarmaður, hæstv. ráðherra, er mættur á svæðið líka. Það er mín skoðun að það þurfi að skipta um mynt hér á Íslandi. Ég tel að við getum ekki búið við krónuna til lengdar og það sé eðlilegast að horfa til evrunnar af því við erum í miklum viðskiptum við Evrópu. Ég tel að það sé einungis tímaspursmál hvenær það mál fari í meiri vinnslu og framsóknarmenn hafa rætt það talsvert innan síns stjórnmálaflokks. Við ályktuðum á sínum tíma um að sækja um aðild að ESB með ákveðnum skilyrðum. Nú er búið að gera það, þannig að það er komið í ferli og það má vel vera að hér verði komin evra áður en við vitum af. Ég held að við getum ekki byggt á krónu til langs tíma.

En aðalatriðið er núna að koma þessu máli okkar framsóknarmanna, 20% leiðréttingu lána, til nefndar, þannig að hægt sé að skoða okkar mál samhliða máli ríkisstjórnarinnar varðandi skuldir heimilanna, af því ég held að ef þessi mál eru unnin þar saman, þá geti kannski eitthvað gott komið úr því, virðulegur forseti.