138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:35]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú eiginlega alveg einboðið að þessi mál, bæði tvö, eigi að lenda hjá sömu nefnd. Vissulega er möguleiki á því að tvær nefndir geti haft samráð en ég tel að þessi mál eigi bæði að lenda hjá sömu nefnd, ekki síst vegna þess að helsti gallinn sem ég sé á tillögum félagsmálaráðherra er sá að í mörgum tilvikum kemur niðurfelling á höfuðstól skuldarinnar löngu eftir að sá sem stofnaði til skuldarinnar er dauður og skipt hefur verið um skuldara. Niðurfelling hér og nú mundi líka gjörbreyta ástandinu á fasteignamarkaði en ástandið þar er eins og allir vita botnfrosið.

Ég ítreka að ég hvet til þess að þessi tvö mál verði unnin samhliða, eða þannig að þeir sem um þau fjalla í nefndum viti mjög vel hver af öðrum.