138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er kannski tæknileg umræða um í hvaða nefnd þetta mál fer. Það er mikilvægt, óháð því í hvaða nefnd málið fer, að það verði þá samráð á milli nefnda, sérstaklega ef það fer í efnahags- og skattanefnd eins og það gerði síðast. Það er auðvitað ekkert mál og við þekkjum mörg dæmi þess að nefndir gefa álit á málum hver hjá annarri. En það er eðlilegt að 1. flutningsmaður eða framsögumaður hér í málinu, sem er hv. þm. Eygló Harðardóttir sem mælti fyrir málinu í fjarveru formanns Framsóknarflokksins, beri fram óskir um í hvaða nefnd þetta mál eigi að fara. Það fór alla vega síðast í efnahags- og skattanefnd, en báðar þessar nefndir eru fullfærar um að vinna það. En það er mjög gott að þessi mál komi á svipuðum tíma inn í þingið, af því þá verður umsagnarferlið væntanlega búið á svipuðum tíma.