138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:45]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Þakka kærlega öllum þátttakendum í þessari umræðu, hún er búin að vera mjög góð og áhugaverð. Ég tek hins vegar undir orð hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að ég sakna þess að ekki skyldu enn þá fleiri taka þátt í henni, sérstaklega frá stjórnarflokkunum. Þótt hv. þm. Magnús Orri Schram hafi staðið vaktina hérna og gert sitt þá hefði verið mjög áhugavert að heyra frá hinum stjórnarflokknum og fulltrúum hans og jafnvel fleiri frá Samfylkingunni.

Ég þakka jafnframt hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að hafa setið hérna í gegnum alla umræðuna. Ég vona að það sé ýmislegt sem kom fram sem muni nýtast í störfum hans í þessu mikilvæga ráðuneyti.

Það kom fram í umræðunni til hvaða nefndar ætti að vísa málinu. Það er skoðun mín og ég hef tjáð hana í greinum á fleiri stöðum að ég tel eðlilegra að tillögur frá ríkisstjórninni um aðgerðir fyrir heimilin hefðu frekar verið unnar einmitt af áðurnefndu ráðuneyti en endilega félagsmálaráðuneytinu, því eins og ég sagði í framsöguræðunni þá lít ég ekki á tillögu okkar sem félagslegt úrræði, heldur er þetta efnahagsleg aðgerð. Þess vegna tel ég best að vísa málinu til efnahags- og skattanefndar, þar sem hún hefur verið tvö fyrri þing. Ég veit að mikið er lagt upp úr því að þeir fulltrúar sem sitja í efnahags- og skattanefnd hafi sérþekkingu á efnahagsmálum og þetta er tillaga sem varðar það. Ég veit ekki betur en tillögu sjálfstæðismanna um bráðaaðgerðir fyrir efnahagslífið hafi líka verið vísað þangað og vil svo sannarlega taka undir orð m.a. hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og hv. þm. Illuga Gunnarssonar þegar þau lögðu til að stofna þverpólitíska nefnd sem mundi fara yfir allar þær hugmyndir og tillögur sem hafa komið fram og legði fram ákveðna niðurstöðu. Ég tel raunar að tillaga félagsmálaráðherra ætti þar heima líka.

Ég legg sem sagt til að vísa þessari tillögu til efnahags- og skattanefndar til umfjöllunar og ég vona svo sannarlega að við fáum að sjá hana koma aftur hérna inn í þingsal, en ekki eins og hefur gerst á undanförnum síðustu tveimur þingum, að við höfum ekki fengið hana rædda eða umsagnir eða nefndarálit frá efnahags- og skattanefnd, en það vona ég að verði breyting á núna á þessu þingi.