138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörumerki, með síðari breytingum, mál nr. 46, á þingskjali 46. Rétt er að halda því til haga að það sýna fleiri þrautseigju en hv. þm. Eygló Harðardóttir sem mælti hér í þriðja sinn fyrir frumvarpi, því þetta mun vera í annað sinn sem ég mæli fyrir þessu og reyndar mun ég mæla fyrir ýmsum öðrum frumvörpum á næstu dögum og vikum í annað eða þriðja sinn.

Með frumvarpi þessu, sem lagt er á ný fram, er lögð til sú breyting á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, að svokölluð tæming réttinda eða réttindaþurrð skv. 2. mgr. 6. gr. laganna verði bundin við Evrópska efnahagssvæðið í stað alþjóðlegrar tæmingar. Í núgildandi ákvæði er ekki tekið fram með skýrum hætti að um alþjóðlega tæmingu sé að ræða. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er hins vegar áréttað að tæming réttinda í íslenskum vörumerkjarétti hafi verið talin ná til heimsins alls. Ákvæði vörumerkjalaga um tæmingu réttinda hefur því verið túlkað á þann veg að hér á landi gildi alþjóðleg tæming. Samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins 8. júlí 2008, í málum nr. E-9/07 og E-10/07, L'Oréal Norge AS og L'Oréal SA gegn Per Aarskog AS, Nille AS og Smart Club AS, samræmist sú túlkun hins vegar ekki ákvæði vörumerkjatilskipunar 89/109/EBE, eins og dómstóllinn túlkar það, en tilskipunin er hluti EES-samningsins. Er því þörf breytinga á lagaákvæðinu.

Tæming vörumerkjaréttar byggir á þeim rétti sem vörumerkjarétthafi fær með skráningu vörumerkis skv. 4. gr. laganna, þ.e. að banna öðrum notkun á vörumerki sínu í atvinnustarfsemi. Afnám alþjóðlegrar tæmingar hefur einkum einkaréttarleg áhrif. Hlutverk vörumerkja er að vera tæki í markaðssetningu og með innleiðingu svæðisbundinnar tæmingar fá rétthafar vörumerkja auknar heimildir til þess að stjórna markaðssetningu og koma í veg fyrir notkun sem fer í bága við vörumerkjarétt þeirra, t.d. samhliða innflutning. Alþjóðleg tæming réttinda hefur á hinn bóginn verið talin stuðla meira að frjálsri samkeppni og viðskiptafrelsi. Getur því svæðisbundin tæming haft í för með sér neikvæð áhrif fyrir neytendur, t.d. mismunandi verð og aðgengi að vöru á mörkuðum.

Hvað snertir tæmingu vörumerkjaréttar má að öðru leyti vísa til athugasemda með frumvarpi þessu.

Í athugasemdunum er jafnframt vísað til ákvæða í 1. mgr. 2. gr. bókunar nr. 28 með EES-samningnum, þess efnis að samningsaðilar skuli sjá til þess að tæming hugverkaréttar sé í samræmi við lög Evrópusambandsins að svo miklu leyti sem ráðstafanir þess eða réttarkerfi taki til tæmingar. Um túlkun ákvæðisins fari samkvæmt viðurkenndum skilningi í viðkomandi úrskurðum Evrópudómstólsins, sem kveðnir hafa verið upp fyrir undirritun samningsins 1992, þó með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni. Jafnframt er þar vikið að dómaframkvæmd hjá Evrópudómstólnum og EFTA-dómstólnum.

Vegna dómaframkvæmdarinnar er nauðsynlegt að setja lög sem snerta innleiðingu á 1. mgr. 7. gr. framangreindrar tilskipunar ráðsins, 89/104/EB frá 21. desember 1988, um samræmingu á lögum um aðildarríkja um vöru, samanber nú samfellda tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/95/EB frá 22. október 2008, um samræmingu á lögum aðildarríkja um vöru.

Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins telur að frumvarpið muni ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til viðskiptanefndar.