138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti nú tekið undir flest ef ekki allt í því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns, þannig að það verður nú kannski ekki mikið um andsvör í þröngum skilningi þess orðs.

Það er alveg rétt að fyrir lítið land með litla stjórnsýslu eins og Ísland óhjákvæmilega er, þá er erfitt að fylgjast með öllu því sem gerist í hinu stóra Evrópusambandi. Við höfum ákveðna aðkomu að þróun þessara tilskipana. Það er ákveðið samráðsferli sem er umsamið fyrir fram og við höfum þar tækifæri til að hafa áhrif þótt það sé ekki með sama hætti nákvæmlega og værum við fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu. Eins og hv. þingmaður benti á, geta íslenskir hagsmunaaðilar, hagsmunasamtök og aðrir slíkir aðilar, komið að athugasemdum. Það má vel vera að í sumum tilfellum geti þeir sett meiri orku í það ef málið er þeim mjög brýnt, heldur en íslensk stjórnsýsla getur gert við öll mál.

Ég tel hins vegar að það sé vandséð hvernig við gætum án þess að kosta til mjög miklu fé gerbreytt þessu fyrirkomulagi. Það er auðvitað allt hægt ef menn vilja forgangsraða þannig að mjög margir starfsmenn í íslenskri stjórnsýslu fylgist með, þá gætum við fylgst betur með og væntanlega komið í veg fyrir einhver slys, en það verður bara að velja og hafna og forgangsraða. Niðurstaðan hefur orðið sú sem við blasir og ég held að reynslan sé nú ekki svo slæm að við teljum réttlætanlegt að stórauka fjárframlög til þess að fylgjast með þessari vinnu. En vissulega er rétt að vera á vaktinni.