138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

skipan ferðamála.

68. mál
[17:12]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005. Frumvarpið var samið í iðnaðarráðuneytinu að höfðu samráði við fulltrúa Ferðamálastofu og Samtaka ferðaþjónustunnar. Tilgangur breytinganna er að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. Að auki eru hér breytingar sem lúta að innleiðingu tilskipunar um þjónustuviðskipti frá EB.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða tvíþættar breytingar. Frumvarpið er tvær greinar utan gildistökugreinar. Í fyrsta lagi eru breytingar sem lúta að innleiðingu tilskipunar frá 2006 nr. 123, um þjónustuviðskipti á þeim kröfum sem hún gerir m.a. til leyfisbreytinga. Hins vegar lúta breytingarnar að málsmeðferð Ferðamálastofu um mat á fjárhæð tryggingar og framlagningu gagna.

Svo ég komi að hinu fyrra og áhrifum þess, þá er lagt til í frumvarpinu að búsetuskilyrði laganna verði felld brott og er það í samræmi við efni frumvarps til laga um þjónustuviðskipti sem byggir á áðurnefndri tilskipun. Þar er gert ráð fyrir að allar hindranir á frjálsum þjónustuviðskiptum verði afnumdar fyrir 28. desember á þessu ári. Þá er lagt til að búsetuskilyrði takmarkist ekki einungis við Ísland heldur að umsækjandi um leyfi hafi búsetu innan EES-svæðisins.

Þá er jafnframt lagt til, virðulegi forseti, að ferðaskrifstofur eða ferðaskipuleggjendur, sem þegar hafa leyfi á EES-svæðinu, þurfi ekki að sækja um slíkt leyfi aftur til Ferðamálastofu hér á landi. Hins vegar er lögð sú skylda á þessa aðila að þeir tilkynni starfsemi sína til Ferðamálastofu og sýni fram á að þeir uppfylli skilyrði laganna um veitingu leyfa eins og verið væri að sækja um það.

Síðari greinin, virðulegi forseti, fjallar um þá breytingu að áritun samkvæmt ákvæðum laga um ársreikninga dugi í stað endurskoðaðs ársreiknings. Sú breyting stuðlar bæði að einfaldari og ódýrari framkvæmd, sem með þessu er ætlað að létta undir með smærri rekstraraðilum, enda gera núgildandi lög um ársreikninga, nr. 3/2006, ekki kröfu um að minni rekstraraðilar leggi fram endurskoðaða reikninga.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa lengri framsögu um þetta mál. Það skýrir sig sjálft. Hér er um einfalt mál að ræða. Ég legg til að frumvarpið fari til iðnaðarnefndar að lokinni þessari umræðu og fái þar frekari umfjöllun.