138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

skipan ferðamála.

68. mál
[17:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála. Eins og iðnaðarráðherra er búin að fara í gegnum er hér um að ræða frumvarp sem hefur þann tilgang að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. Það er alltaf ánægjulegt þegar maður fær mál sem hefur það að markmiði að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, hún hefur nú oft verið kannski hæg. Svo er þessi seinni liður, um að einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hefði gjarnan viljað sjá þessi markmið í meira mæli því þau hafa ekki verið í hávegum höfð innan stjórnsýslunnar almennt. Mér sýnist mun frekar einmitt í þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram að þar sé verið að flækja hlutina fyrir þá sem standa í rekstri eða þurfa að hafa einhver samskipti við hið opinbera og sérstaklega þessi liður um að lækka kostnað, því það hefur ekki verið mikið um það hingað til í því sem kemur frá ríkisstjórninni. Þá er ég sérstaklega að hugsa um það sem varðar fjárlagafrumvarpið, þar sem mun meira hefur verið í því að auka útgjöld hjá fyrirtækjum og einstaklingum, meðan markmiðið er kannski frekar að lækka kostnað fyrir ríkið.

Síðan er verið að vinna að innleiðingu tilskipunar um þjónustuviðskipti. Það er annað mál sem við gerum ráð fyrir því að fá einmitt inn í viðskiptanefnd fljótlega. Þannig að ég geri svo sem ráð fyrir að einhverju leyti muni þetta mál koma inn á okkar borð til samræmingar.

Einnig lúta breytingarnar að málsmeðferð Ferðamálastofu um mat á fjárhæð tryggingar og framlagningu gagna. Eftir sem áður er tryggt að fyrir liggi nauðsynlegar upplýsingar fyrir yfirvöld til þess að hafa eftirlit með að tryggingar ferðaskrifstofu vegna sölu alferða séu í samræmi við lög og tilskipun 90/314/EB um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka.

Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þær ferðaskrifstofur sem starfa hér fyrir vegna ferða utan lands. Ég held að það sé geiri sem á í miklum erfiðleikum. Þá skiptir einmitt máli að við skoðum hvernig við getum vegið og metið það að gæði þjónustunnar séu tryggð og að kaupandi fái örugglega það sem hann er að kaupa, en síðan líka að við reynum að einfalda stjórnsýsluna og viðmótið gagnvart fyrirtækjunum.

Talað er um að þetta mál sé lagt fram samhliða þjónustutilskipuninni. Mig misminnir kannski en ég held að ekki sé búið að mæla fyrir henni, en hún kemur þá væntanlega fljótlega.

Tilgangur þjónustutilskipunar er, eins og ráðherra sagði, að koma á raunverulegum innri markaði á sviði þjónustuviðskipta með því að fjarlægja lagalegar og stjórnsýslulegar hindranir svo þjónustuveitendur og þjónustuviðtakendur eigi auðveldara með að veita og nýta sér þjónustu yfir landamæri. Tilskipunin á að tryggja þjónustuveitendum þau grundvallarréttindi sem kveðið er á um í 32. og 36. gr. EES-samningsins og innri markaður byggist á, þ.e. staðfestufrelsi og frelsi til að veita þjónustu.

Þetta er hins vegar mál sem ég er sannfærð um að á eftir að verða rætt mjög mikið í þinginu, vegna þess að eins og við upplifðum í tengslum við stórframkvæmdir hér fyrir nokkrum missirum síðan, þá höfðu ýmsir athugasemdir við þá þjónustu sem var verið að veita í formi vinnuafls, þannig að fastlega má gera ráð fyrir að hér verði mjög heit og mikil umræða einmitt um það.

Hérna einmitt er talað um að með afnámi hindrana verði auðveldara fyrir þjónustuveitendur að veita þjónustu án staðfestu, sem jafnframt eykur samkeppni og leiðir því til hagræðis fyrir viðtakendur þjónustu í formi lægra verðs og betri gæða. Þetta held ég verði einmitt stóra hitamálið, hvort hér sé um að ræða kannski lægra verð en spurning hvort gæðin séu sambærileg. Það var eitt af því sem menn gerðu miklar athugasemdir við að þarna væri verið að veita þjónustu, sem sagt starfsmenn og á lægra verði, og þar með væri í raun og veru verið að kippa fótunum undan því samkomulagi og þeirri sátt sem hefði t.d. verið á vinnumarkaðnum innan lands. Og síðan er spurning hvort við séum virkilega að tala t.d. um meiri gæði, því við hér á Íslandi höfum t.d. lagt mjög mikið upp úr því að vera með mjög góða menntun í iðnnámi, hjá smiðum og pípulagningarmönnum og ég gæti nefnt fleiri dæmi. Ég held að það sé almennt álitið að íslenskir iðnaðarmenn séu mjög fjölhæfir í sínu starfi. Það virtist ekki alltaf vera svo að við fengjum sömu gæði sem við keyptum á lægra verði.

Ákvæði tilskipunarinnar gera kröfu um að aðildarríkin yfirfari öll leyfisferli og einfaldi eins og kostur er en einföldun ferla kemur sér ekki einungis vel fyrir þjónustuveitendur, heldur er til þess fallin að minnka álag og útgjöld stjórnvalda.

Ég vil benda á að það væri kannski eitthvað sem hæstv. ráðherra gæti kynnt sér að stjórnvöld í Svíþjóð, sem eru að vísu ekki leidd núna af systurflokki Samfylkingarinnar, settu á stofn nefnd sem skyldi sérstaklega fara yfir allt kerfið og skoða hvernig væri hægt að lækka kostnað fyrir fyrirtæki. Þar sem ráðherrann er einmitt með þjónustu við nýsköpun og sprotafyrirtæki á sínu verksviði, þá er það náttúrlega eitthvað sem skiptir virkilega miklu máli fyrir ráðuneytið að kostnaður t.d. við nýsköpun sé sem allra minnstur. Það væri hægt að útvíkka þetta þannig að við séum ekki bara að tala hérna um þjónustuvitund, heldur væri þetta eitthvað sem ráðuneytið gæti horft á fyrir alla þá sem ætla sér að stofna fyrirtæki og eru að reka fyrirtæki.

Síðan segir hérna að í 44. gr. tilskipunar sé lögð sú skylda á aðildarríki að hafa samræmt öll lög og reglugerðir er lúta að þjónustuviðskiptum við ákvæði tilskipunarinnar fyrir 28. desember 2009. Er því gert ráð fyrir í frumvarpinu að ákvæði 1. gr. taki einnig gildi sama dag.

Ég nefndi í andsvari mínu við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að þetta er eitthvað sem ég hef töluverðar áhyggjur af, ég verð að viðurkenna það, að við komum oft svo seint að málunum innan Evrópusambandsins. Í raun er búið að stilla okkur upp við vegg, þannig að við þurfum að innleiða tilskipanir sem við í mörgum tilvikum höfum jafnvel ekkert komið nálægt að þróa og móta. Ýmsir hafa svo sem sagt að við leysum það allt með því að ganga í Evrópusambandið. Ég get að vísu ekki tekið undir það vegna þess að þar er náttúrlega sami vandinn, við þurfum að bæta við fólki hvort sem við erum utan Evrópusambandsins eða innan þess, til að fylgjast með því hvað er að gerast þarna. Ef við viljum fylgjast með og hafa áhrif á þau lög og þær gerðir sem koma frá Evrópusambandinu þá þurfum við náttúrlega að hafa fólk á staðnum og þá er ekki nóg, eins og í tilviki efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, að vera með starfsmann í 50% starfi í Brussel sem á að fylgjast með öllu því fargani sem ESB virðist geta framleitt.

Í frumvarpinu er svo lagt til að kröfu um búsetuskilyrði sem er í lögum um skipan ferðamála verði breytt á þann veg að þeir sem óska eftir ferðaskipuleggjenda- eða ferðaskrifstofuleyfi geti einnig haft búsetu annars staðar á EES-svæðinu. Nauðsynlegt er að áfram verði gert að skilyrði fyrir rekstri ferðaskrifstofu eða ferðaskipuleggjanda innan lands að viðkomandi þurfi að afla sér leyfis Ferðamálastofu. Slíkt er samkvæmt textanum til þess fallið að tryggja gæði þjónustunnar ásamt því að veita neytendum nægjanlegt öryggi. Í því felst jafnframt að viðkomandi ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa þarf að leggja fram tryggingar hérlendis, nema hann sýni fram á með fullnægjandi hætti að þær tryggingar sem hann hefur lagt fram í öðru EES-ríki fullnægi skilyrðum íslensku laganna.

Út frá þeim fyrirvörum sem ég hef nefnt tel ég að við þurfum að vanda okkur virkilega vel við innleiðingu þessarar þjónustutilskipunar í ljósi reynslunnar. Þetta er mál sem að mestu leyti ætti bara að vera til þess að bæta núverandi lög. Lykilatriðið er náttúrlega að Ferðamálastofa geti áfram fylgst með því að viðkomandi hafi tryggingar sem við teljum ásættanlegar, þó viðkomandi hafi ekki búsetu hér á landi.

Að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir að þetta mál skuli hafa verið lagt fram. Ég vonast til þess og vænti þess að iðnaðarráðherra, í framhaldinu, komi jafnvel með einmitt fleiri mál sem hafi þann tilgang að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. Þannig að það verði sem flest mál sem hafi einmitt þennan tilgang.