138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

skipan ferðamála.

68. mál
[17:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara þakka fyrir þessa umræðu þó styttri hafi verið en ég vonaðist til, ég sá að menn höfðu komið sér vel fyrir á mælendaskrá og var að vonast til hressilegrar umræðu um ferðamál. Ástæðan er auðvitað sú að mér finnst að ferðamál eigi að fá sífellt meira rými í okkar atvinnulífi. Þau eru að verða einn af okkar stærstu og glæsilegustu atvinnuvegum. Sem dæmi má nefna að í ágústmánuði t.d. fjölgaði ferðamönnum hér á landi um 12% frá því í ágústmánuði á síðasta ári. Á fjáraukalögum leggjum við til að Alþingi veiti fjármagn til að ráðast í markaðsátak svo fá megi fleiri ferðamenn til landsins. Þetta þýðir auðvitað það, virðulegi forseti, að það dugar ekki fyrir stjórnvöld að horfa bara til þess hvernig við fáum fleiri ferðamenn til landsins og reyna að fá fleiri ferðamenn til landsins, heldur verðum við að hugsa um innviðina, þ.e. að styrkja ferðaþjónustu hér innan lands. Er það gert með ýmsum hætti og ein af þeim leiðum er líka að gera eins og komið var hér inn á, að gera allt ferlið í kringum hana skilvirkara, einfaldara og ódýrara. Mjög oft er um einyrkja að ræða og nýsköpunin í ferðamennsku á sér ekki síst stað meðal einyrkja. Það skiptir miklu máli að þeim sé ekki íþyngt um of af stjórnsýslunni. Þess vegna er þetta mál lagt fram.

Virðulegi forseti. Án efa verður umræðan um ferðaþjónustuna fyrirferðarmeiri hér í þinginu í vetur. Núna á eftir verður tekið fyrir mál hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um gerð landnýtingaráætlunar fyrir ferðaþjónustu á miðhálendinu. Ég tel þá umfjöllun mjög mikilvæga og við munum líka eiga frekara samtal um það, ég og hv. þingmaður á morgun, og um skipan ferðamála innan lands. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er sú að þessi landnýtingaráætlun er eitt af því sem við í ráðuneytinu viljum finna flöt á að ráðast í. Ég fagna því mjög máli hv. þm. sem er að leggja það fram í annað sinn og tel að við eigum eftir að geta í sameiningu farið vandlega yfir þessi mál. Ég hef þegar óskað eftir því að Ferðamálastofa kalli saman hlutaðeigandi aðila þannig að menn geti stigið fyrstu skrefin í þessa átt.