138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[17:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þessa tillögu. Mig langar til að beina tveimur spurningum til hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.

Í ljósi þess sem kemur fram í greinargerðinni, að fyrrverandi umhverfisráðherra tók afstöðu til þess hvort framkvæmdirnar í Helguvík skyldu sæta sameiginlegu mati, þá benti þáverandi ráðherra á að hann teldi að þar með yrði farið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og sjónarmiði um að réttmætar væntingar framkvæmdaraðila stæðu í vegi fyrir að hægt væri að beita 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og fara fram á sameiginlegt mat. Telur hv. þingmaður að hér sé um að ræða góða stjórnsýslu? Ef svo er ekki, hver eru rökin fyrir því?

Síðan vil ég gjarnan heyra líka frá hv. þingmanni af því ég veit að hún þekkir mjög vel til á Suðurnesjum: Er það þannig að þingmaðurinn telur að hæstv. umhverfisráðherra sé fyrst og fremst að stoppa af virkjana- og álversframkvæmdir á Suðurnesjum? Eða telur hv. þingmaður að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að þetta geti hugsanlega brugðið fæti fyrir fjölda annarra verkefna sem Suðurnesjamenn hafa verið að vinna að af miklum krafti frá því þeir urðu fyrir mjög miklu áfalli fyrir þremur árum síðan þegar herstöðin lokaði og svo hefur bæst við núna áfallið í tengslum við efnahagshrunið?

Ég hef mikinn áhuga á að heyra svör þingmannsins við þessum spurningum.