138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi góðu stjórnsýsluna. Nei, ég tel þetta ekki dæmi um góða stjórnsýslu eins og ég rakti í máli mínu og ég er ekki ein þeirrar skoðunar, vegna þess að eins og ég nefndi þá hafa bæði Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins og fleiri rakið þau meintu lögbrot sem hæstv. umhverfisráðherra á að hafa framið með þessum úrskurði. Ég tek undir orð þeirra fyrir því.

Þetta mál er pólitískt eins og ég talaði um. Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra sé gagngert að gera þetta til að stoppa af framkvæmdir á Suðurnesjum. Ég held að ráðherra gangi ekkert endilega illt til, að hún sé ekkert endilega með skotmarkið á Suðurnesjamönnum. Ég held að ráðherra átti sig ekki á því hvaða afleiðingar þessi ákvörðun hefur, vegna þess að afleiðingarnar eru mjög djúpstæðar og eins og hv. þingmaður benti á þá er fjöldi annarra verkefna sem bíða og treysta líka á þessar línur.

Gagnaverið, það er eitthvað annað. Gagnaverið þarf orku. Gagnaverið þarf ekki nema 20–30 megavött, en þeir þurfa línurnar, þeir þurfa orkuna frá línunum, sem Helguvíkurálverið tryggir að komi á svæðið. Þetta hangir allt saman. Við erum að tala um kísilver. Við erum að tala um lítinn smáiðnað á Suðurnesjum sem þarf tryggt afhendingaröryggi. Við erum með flugstöðina á þessu svæði. Við þurfum að tryggja afhendingaröryggi orku á Suðurnesjum og þetta er liður í því og þetta er miklu stærra mál fyrir þetta svæði (Forseti hringir.) en bara álverið í Helguvík.