138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að það er svo mikið af þessu „eitthvað annað“ á Suðurnesjum. Og umrætt viðtal sem þingmaðurinn nefnir, ég deili skoðun hennar á því. Ég varð ævareið þegar ég heyrði að hæstv. umhverfisráðherra talaði í þessu viðtali um ósmekklega pólitík bæjarstjórans í Reykjanesbæ og deildi ekki þeim aðferðum sem hann beitir í þeim málstað að ganga erinda þessa ágæta iðnaðar, áliðnaðar, sem henni er svo illa við. Ég fann mig knúna til að svara hæstv. umhverfisráðherra í blaðagrein þar sem ég nefni einmitt að á Suðurnesjum hefur farið fram margvísleg atvinnuuppbygging, ekki síst í ferðaþjónustu. Ég get nefnt Víkingaheima. Ég get nefnt menningarhúsin í Duus, sem er búið að byggja upp. Ég get nefnt Bláa demantinn, sem er verið að nota til þess að trekkja þarna. Það er önnur ferðaþjónusta, heilsutengd ferðaþjónusta, sem verið er að reyna að byggja upp, en reyndar hafa flokkssystkin hæstv. umhverfisráðherra sett hornin fyrir það, þar sem ekki mátti nota tómar skurðstofur, en það er önnur saga. Það er verið að reyna að byggja upp atvinnustarfsemi á Suðurnesjum út um allt, í öllum atvinnugreinum. Tilfinning Suðurnesjamanna er þessi: Ríkisstjórnin er alls staðar að bregða fyrir okkur fæti. Og þeir segja bara: Látið okkur vera, við erum með fullt af tækifærum hérna, alveg morandi allt í tækifærum, ef við bara fengjum frið til þess að byggja upp og til þess að nota þær auðlindir sem við höfum, hvort sem það er orkuauðlindin eða önnur auðlind á svæðinu. Það eru skilaboð Suðurnesjamanna (Forseti hringir.) til hæstv. umhverfisráðherra.