138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir ræðu hans sem var um margt ágæt og ég efast ekkert um stuðning hans við verkefnið í Helguvík. En ég saknaði þess að heyra ekki þingmanninn lýsa yfir stuðningi við þessa ágætu þingsályktunartillögu sem ég gerði hreinlega ráð fyrir að hann mundi koma með okkur, að hann mundi hjálpa okkur að koma í gegnum þingið. Því vil ég spyrja hv. þingmann beint hvort hann hyggist greiða atkvæði með þessari tillögu vegna þess að ég held að Suðurnesjamenn, kjósendur í Suðurkjördæmi, treysti á 1. þingmanninn sinn í þessum efnum.

Ég var ánægð með það á borgarafundinum sem var haldinn um daginn að þar kom fram skýr samtakamáttur þingmanna Suðurkjördæmis, sem þar voru staddir, og varaþingmanna, það voru tveir varaþingmenn Samfylkingarinnar staddir á fundinum sem báðir lýstu stuðningi við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist ekki greiða atkvæði með þessari tillögu.