138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í umræðuna í dag. Ég er ánægð að sjá hann hér í umræðunni. Það er meira en hægt er að segja um aðra þingmenn Suðurkjördæmis úr hinum ríkisstjórnarflokknum.

Hv. þingmaður talaði mikið um erlenda fjárfestingu og hversu mikilvægt það væri að stuðla að henni og að erlent fjármagn kæmi inn í landið okkar til að stuðla að endurreisn efnahagslífsins. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ákvörðun ráðherrans sendi ekki þau skilaboð til erlendra fjárfesta að íslenskum stjórnvöldum sé hreinlega ekki treystandi til að standa við fyrri ákvarðanir sínar. Eru það ekki alvarleg skilaboð? Er hann ekki sammála mér um að erlendir fjárfestar hafa engan áhuga á óvissu og skrifræði? Er hann ekki sammála mér um að þessi ákvörðun ásamt fleirum sem dunið hafa yfir okkur á undanförnum missirum hafi áhrif á þetta, hafi áhrif á möguleika okkar og hafi áhrif úti í heimi á það hverjir hafa áhuga á að koma hingað og fjárfesta og hjálpa okkur við endurreisnina?

Þetta er punktur sem ég tel vera mjög alvarlegan og eiginlega það alvarlegasta við þetta allt saman vegna þess að við megum ekki við því að missa af tækifærinu. Það er sök sér ef hæstv. umhverfisráðherra hefur þá skoðun að það eigi ekki að byggja álver í Helguvík, það er bara skoðun og þá getur ráðherrann komið henni á framfæri þar sem við á en ekki með þessum hætti. Maður fer ekki á svig við stjórnsýsluna og ber fyrir sig góða stjórnsýsluhætti, sérstaklega ekki í ljósi þess að það hefur alvarlegar afleiðingar á möguleika okkar til að byggja upp.

Ég veit að hv. 1. þm. Suðurkjördæmis hefur mikinn áhuga á því að fjölga störfum í kjördæminu og ég veit að hann er sammála mér um það að álver í Helguvík er mikilvægur þáttur í því að byggja upp atvinnulífið á Suðurnesjum og ég veit að hann er sammála mér um það og okkur öllum sem hér hafa talað í umræðunni að línulögnin varðar ekki bara álver í Helguvík heldur marga aðra þætti og þess vegna á hæstv. ráðherra ekki að vera að blanda þessu tvennu saman. Er það ekki rétt skilið hjá mér að við berjumst saman að því að laða erlenda fjárfestingu til Íslands?