138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:34]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það veldur mér miklum áhyggjum að hlusta á orðræðu sjálfstæðismanna um virkjanir og stóriðju, ekki bara í dag heldur marga síðustu daga og margar síðustu vikur og marga síðustu mánuði (Gripið fram í: Og ár.) og ár, þakka þér fyrir. Tónninn er sá að Alþingi eigi ekki að þvælast fyrir framkvæmdum. Sá tónn var m.a. sleginn í grein hv. þm. Jóns Gunnarssonar stuttu eftir hrun þar sem hann sagði orðrétt: „Ekki standa í vegi fyrir framkvæmdum, hvorki Alþingi né stjórnvöld.“ Fleiri hafa viðrað slíkar skoðanir síðan.

Hvað er það sem umhverfisráðherra vill gera? Hvað er það sem Vinstri græn vilja gera? Hugsa hlutina í samhengi, fara fram með sjálfbærni í huga, gæta hagsmuna almennings og umhverfisins. Það er ekki þannig að Vinstri græn vilji koma í veg fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi en við hugsum kannski fyrst um aðra hluti og sjáum svo til hvort erlendir fjárfestar eru til í að koma á þeim forsendum. Af þeim sökum tók umhverfisráðherra þá sjálfsögðu ákvörðun að kalla eftir frekari upplýsingum.

Ég velti því fyrir mér, og gleðst mjög yfir því að hér sé vinstri stjórn ríkjandi: Hvaða leiðir færu sjálfstæðismenn ef þeir væru í stjórn? Hverju væru þeir tilbúnir til að ryðja úr vegi til að liðka fyrir erlendum fjárfestingum? Ég er hræddur um að það væri ansi stór biti.