138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða gríðarlega stórt mál sem varðar ekki eingöngu íbúa Suðurnesja, sem eru væntanlega hinn endinn á þessari ágætu rafmagnslínu sem kallast Suðvesturlína — þar munu þeir stinga í samband — heldur erum við líka að ræða um mál sem varðar allt þjóðfélagið og varðar hvernig við byggjum upp úr kreppu og hvernig við ætlum okkur að komast út úr þeim vanda sem við erum í í dag. Umræðan snýst í raun um það hvort við ætlum að nýta þau tækifæri sem við höfum hér á Íslandi til að koma okkur út úr þessu.

Hver eru svo þessi tækifæri sem við höfum? Við höfum tækifæri sem felast í náttúruauðlindum, við höfum tækifæri sem felast í hugviti, fólkinu í landinu, í sjónum, þekkingu okkar á hvernig á að vinna sig út úr málum. Þess vegna er það mjög sérkennilegt þegar ríkisstjórn virðist leika þá leiki, og ég tala um ríkisstjórnina í heild því að ég veit ekki til annars en að hún standi saman að þessum málum öllum, þó vera kunni að það sé einhver skoðanamunur þar á, að ríkisstjórn sem virðist leggja sig í líma við það að — ja, annaðhvort eru samræðustjórnmálin svona svakalega snúin að það þurfi að ræða málin alveg út í hið óendanlega eða þá að það er hreinlega hræðsla við að taka ákvarðanir, eða þriðji punkturinn að það sé ekki vilji innan ríkisstjórnarinnar, á stjórnarheimilinu, til að nýta þau tækifæri sem eru vegna þess að sá pólitíski rétttrúnaður sem sumir stjórnmálamenn eða stjórnarmenn í ríkisstjórninni hafa bitið í sig er þeim svo sterkur að þeir geta ekki vikið af braut. Jafnvel þó að hér brenni heimili og fyrirtæki er ekki hægt að víkja til hliðar gömlum — ég ætla að leyfa mér að segja það — gömlum kreddum úr austantjaldsstjórnmálafræðibókum.

Árið 2008 voru gjaldeyristekjur Íslands þannig að stóriðja skapaði tæplega 30% af gjaldeyristekjum og sjávarútvegur 26,3% og erlendir ferðamenn um 17%. Það skiptir máli fyrir okkur að horfa á þessar tölur því að fjárlagafrumvarpið og sú stefna sem hv. þm. Illugi Gunnarsson minntist á hér áðan byggir í rauninni á þessu líka. Það er verið að horfa á það í áætlunum ríkisvaldsins, ef eitthvað er að marka þetta yfirleitt, að byggja áfram á þeim undirstöðuatvinnugreinum sem við hér höfum, þ.e. að framleiða vörur og flytja út og flytja inn ferðamenn til þess að skapa gjaldeyri. Það er því mjög sérkennilegt hvernig ríkisstjórnin fer inn í þetta mál.

Það sem er líka alvarlegt í þessu öllu er að tengja þetta við þessa einu framkvæmd, sem er vissulega stór og ég mun aðeins koma að því hérna á eftir, sem er Helguvíkurframkvæmdin, að vitanlega er margt fleira í húfi. Það er einfaldlega þannig að kerfið þarf að styrkja og bæta til þess að jafnvel þau fyrirtæki sem eru starfandi í dag geti unað eða verið sæmilega örugg um raforku og þau fyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki og annað sem eru að hugsa sinn gang um að fara af stað með starfsemi á Suðurnesjum eða, eins og ég orðaði það áðan, við endann á þessari línu. Það eru gagnaver og ýmislegt annað sem er í pípunum.

Síðan ekki síst er svokallaður stöðugleikasáttmáli í hættu, því er margbúið að lýsa yfir. Ég hef sjálfur velt því aðeins fyrir mér hvað felst í þessum stöðugleikasáttmála því að síðan hann var undirritaður hefur lítið gerst annað en að hann hefur verið gagnrýndur af þeim sem skrifuðu undir hann, öðrum en ríkisvaldinu, fyrir að ekki stendur steinn yfir steini í þessum ágæta sáttmála.

Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram til að vekja athygli á því og til að reyna að fá Alþingi til að snúa við með því að senda skýr skilaboð til umhverfisráðherra um að það beri að nýta þau tækifæri sem hér eru til þess að koma okkur út úr þeim vanda sem við erum í. Álfyrirtækin skapa um 4.200 stöðugildi sýnist mér af öllu, samkvæmt upplýsingum sem ég hef. Það eru stöðugildi sem menn tína ekki upp af götunni og má velta fyrir sér hvaða önnur stöðugildi væru til ef þau hefðu ekki orðið. Ég hef ekki heyrt neinn koma með það og draga það hér fram hvaða mögulegu störf það gætu verið. Ég fullyrði að þetta eru glæsileg fyrirtæki þar sem er vel búið að starfsfólki og góð framleiðsla, þ.e. gott umhverfi fyrir þá sem þar vinna. Það þekki ég hreinlega af persónulegum tengslum við fólk sem hefur unnið í þessum ágætu fyrirtækjum.

Í dag þurfum við erlenda fjárfestingu. Við þurfum erlenda fjárfestingu vegna þess að Íslendingar og fyrirtæki á Íslandi hafa ekki þá burði sem þarf í dag til þess að standa undir þeim fjárfestingum sem eru nauðsynlegar, hvort sem það er í orkugeiranum eða atvinnusköpun eða einhverju öðru. Því er það skylda ríkisstjórnarinnar og það er skylda umhverfisráðherra sem og annarra ráðherra að vanda sig við þá stjórnsýslu sem þeir viðhafa og láta ekki, eins og ég nefndi áðan, einhvers konar lífssýn í raun standa í vegi fyrir því að hér verði samfélaginu komið áfram.

Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því að framkvæmdin við Helguvík kostar um 1.800 milljónir bandaríkjadala, er mér tjáð, sem er mjög svipað og það lán sem við ætlum að fá frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er framkvæmd upp á nærri svipaða upphæð, bara Helguvíkurframkvæmdin, þá er ég ekki að tala um aðrar framkvæmdir sem geta hugsanlega komið í framhaldinu af því að þessi ágæta rafmagnslína rís, að af þessum 1.800 milljónum Bandaríkjadala er ekki verið að borga vexti eins og við munum þurfa að borga af þessu blessaða AGS-láni, verði það tekið, heldur fer þetta í raun beint út í samfélagið í framkvæmdir. Það eru fjölmargir aðilar sem njóta góðs af þessari framkvæmd meðan á henni stendur og í framhaldi þegar hún er komin í gagnið.

Í framhaldi af þessu má benda á að á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum sem eru ritaðar að mig minnir á vefsíðu Norðuráls kemur fram að á síðasta ári greiddi fyrirtækið um 25 milljarða kr. til þjónustufyrirtækja, orkufyrirtækja og í laun og launatengd gjöld. Með leyfi forseta stendur í grein sem starfsmaður Norðuráls skrifaði:

„Þar af námu greiðslur til þjónustufyrirtækja um 10 milljörðum kr.“

Gerir fólk sér grein fyrir því að álfyrirtækin eru líklega með 60% af öllum skipaflutningum til og frá landinu? Mér finnst ekki sanngjörn öll sú umræða sem er viðhöfð varðandi þennan atvinnugeira, og þá er ég ekki að segja að það eigi ekki að vera önnur atvinnusköpun, alls ekki. En við megum heldur ekki tala ákveðnar atvinnugreinar niður í svaðið og út af borðinu þegar þúsundir manna vinna við þetta beint og óbeint og þetta skapar milljarðatugi hér inn í samfélagið.

Síðan er það eitt. Ef við setjum álver í alþjóðlegt samhengi er það vitanlega mjög sérstakt að við skulum vera sífellt að tala um að álverin séu, eins og einhvers staðar var skrifað og er dregið upp jafnvel í heimildarmyndum sem eru í raun pólitískar heimildarmyndir, sýndar í bíóum og sjónvarpi, að álfyrirtækin séu eldspúandi stóriðja. Þannig er nú varðandi gróðurhúsalofttegundir að losun er að meðaltali 10–12 tonn fyrir hvert tonn framleitt hjá álverum í heiminum en það mælist 1,4–1,7 tonn hjá álverum á Íslandi. Hvað segir það okkur? Það hlýtur að vera betra fyrir umhverfismál alheimsins þegar við setjum það í þetta samhengi að álið sé framleitt hér með íslenskri, grænni, umhverfisvænni orku en kolum, gasi og olíu einhvers staðar annars staðar í heiminum. Ég bið því bara um að það sé gætt sannmælis í þessari umfjöllun.

Hæstv. umhverfisráðherra. Ég hvet þig til að endurskoða þessa ákvörðun þína því að hún hefur þegar haft mikil áhrif á atvinnulíf, (Gripið fram í: Ávarpa forseta.) frú forseti, þegar haft mikil áhrif á atvinnulífið og þjóðlífið og okkur ber að standa vörð um framtíðina og við megum ekki taka röng skref sem ég held að sé verið að taka hér í þessu máli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa forseta en ekki ráðherra eða þingmenn úti í sal.)