138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:49]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það gæti verið eftirfarandi frétt í ótiltekinni fréttastofu á Íslandi kl. 10 mínútur í 7 á þessum mæta degi, með leyfi forseta: Þau undur og stórmerki eru að gerast á Íslandi, sem átt hefur undir högg að sækja síðustu missiri, að hæstv. umhverfisráðherra Íslands hefur gert skyndiárás á samfélag landsins sem hefur barist af hetjumóð við að snúa vörn í sókn. Hæstv. umhverfisráðherra hefur með hringli sínu og valdbeitingu varðandi Suðvesturlínu á Reykjanesi sett stórkostleg og eðlileg tækifæri í uppnám.

Þetta er mergurinn málsins og þarf ekkert kurteisishjal í kringum það. Umræðan hefur svolítið farið á víð og dreif þar sem menn hafa farið frá kjarna málsins. Þessi umræða snýst um valdbeitingu hæstv. umhverfisráðherra í því máli sem hér er fjallað um.

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. umhverfisráðherra skvettir úr pólitískum koppum framan í íslenska þjóð verður að bregðast við með mæltu máli. Skyndiárás á íslenskt samfélag. Er það metnaðarfull stefna og ætlan hæstv. umhverfisráðherra?

Það var náttúrlega með ólíkindum, virðulegi forseti, í samtali við hæstv. umhverfisráðherra í einu blaði helgarinnar síðustu, Fréttablaðinu, þar sem hæstv. ráðherra var spurð um það hvort hún hefði ekki áhyggjur af atvinnuleysi 1.700 manna á Suðurnesjum. Nei. Nei, nei, ég er að bjarga mannkyninu. Hæstv. ráðherra er að bjarga mannkyninu. Hæstv. ráðherra er að hugsa 2.000 ár fram í tímann. Líðandi stund skiptir engu máli, sýndarmennskan veður og veður og veður. Ekki bara sýndarmennska. Hagsmunapot hæstv. umhverfisráðherra úr einhverri grilluskjóðu sem okkur varðar ekkert um í dag. Okkur varðar um að leysa mál Íslendinga, venjulegra Íslendinga sem eiga kröfu og rétt á því að sköpuð séu verðmæti úr auðlindum okkar og þeim tækifærum sem við höfum til að skapa vinnu fyrir fólkið í landinu. Fólkið í landinu á að vera númer eitt, tvö og þrjú en ekki 2.000 ára hugsjón, hæstv. umhverfisráðherra, sem maður getur út af fyrir sig verið sammála en það er bara ekki tímabært. Hrapallegur misskilningur. Nei, í staðinn veður hæstv. umhverfisráðherra á fólkið í landinu með höggum, lætur dynja á höggum og það virðist eins og hæstv. umhverfisráðherra eigi erfitt með að gera upp við sig hvort ráðherrann ætlar að vera Muhammed Ali eða Messías. 2.000 ára tímabil er gott tímabil.

Hvaða vinnubrögð eru í gangi? Ef hæstv. umhverfisráðherra lítur svo á að hér sé um að ræða partí þar sem eigi að vera óvæntar uppákomur þá er rétt að það komi fram. Það eru bara ekki þær aðstæður að það sé tilefni til slíks í íslensku þjóðfélagi í dag. Það eru nákvæmlega aðstæður til að takast á við verkefnin, takast á við þá möguleika sem eru fyrir hendi. Það skipuleggur enginn fyrir fram þegar línan er sett í sjóinn og krókarnir hvaða fiskur kemur á en það þarf að reyna að bjarga sér og það þurfum við að gera í dag án þess að sitja undir hryðjuverkaárásum þessarar ríkisstjórnar hæstvirtrar, hryðjuverkaárásum. Það hefur verið í umræðunni orðað svo að þetta væri á ábyrgð ...

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að gæta hófs í orðavali.)

Virðulegi forseti. Ég tala hér íslenska tungu, ég tala ekki brusselsku, ég tala mælt mál, íslenska tungu, ekki brusselsku. Og það er ekkert sem ég hef sagt sem stenst ekki kröfur um eðlilega íslensku.

Það er nú svo, virðulegi forseti, að það gengur auðvitað ekki upp þegar hjartaaðgerð á sér stað að læknirinn sulli salti í sárin og hræri síðan í með hnífnum. Það er hæstv. umhverfisráðherra að gera í dag með afskiptum sínum af Suðvesturlínu. Hún hefur ruglað í ríminu alla eðlilega þætti í viðskiptum, mannasiðum og framgangi mála á Íslandi. Hæstv. ráðherra ástundar vinnubrögð sem eru til skammar. Þetta verðum við að horfast í augu við og þess vegna er krafan sú að hæstv. umhverfisráðherra dragi til baka þá gjörð sem hún hefur sett fram, hæstv. ráðherra.

Það er margt undir. Það er ekki bara atvinna þúsunda Íslendinga sem þurfa að fá atvinnu vegna þess að ef atvinnan er ekki til staðar ganga ekki heimilin, þá ganga ekki fjölskyldurnar. Og það þýðir ekki að hugsa 2.000 ár fram í tímann í þeim efnum. Það er bara ekki tímabært. Það er, virðulegi forseti, ástæða til að minna á að forseti Alþýðusambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, hefur sagt berum orðum að ef hæstv. umhverfisráðherra dregur ekki til baka gjörð sína varðandi Suðvesturlínu þá sé stöðugleikasáttmálinn í uppnámi. Hvað þýðir það, virðulegi forseti? Það þýðir að þá fer allt, eins og sagt er á góðu íslensku máli til sjávar og sveita, til fjandans.

Stöðugleikasáttmálinn er lykillinn að því að menn gangi nú til eðlilegra verka og árangurs á Íslandi í dag. Þá þýðir ekkert sú geðþóttaákvörðun hjá hæstv. umhverfisráðherra sem er úr takti við allt sem er eðlilegt. Hæstv. umhverfisráðherra getur ekki verið eyland í ríkisstjórninni. Hæstv. umhverfisráðherra er hluti af þessari áhöfn sem heitir ríkisstjórn og verður að bera ábyrgð sem slíkur. Hitt eru viðvaningsvinnubrögð, nýgræðingsvinnubrögð, vinnubrögð sem skorta verksvit, reynslu og þekkingu. Það þýða engin dúkkulísuvinnubrögð í þessum efnum, það þýðir ekkert að stilla sér upp með júffertusvip og bera sig vel í partíinu því það er ekkert partí.

Okkar lyklar í orku landsins, fallvötnum og gufu eru orkuverin. Það er bankainneign okkar inn í framtíðina. Svo koma nýtingaraðilarnir hvort sem það eru gagnaver, álver eða annað sem kemur til af tækifærum hvers tíma, hverrar stundar. Álver koma og fara eins og fólk. Þau duga í 10 ár, 20 ár, 30 ár. Orkuverin eru aldainnlegg okkar inn í framtíðina. Þau eru möguleikar okkar til að standast tímans tönn, standast möguleikana, standast kröfurnar um velferðarsamfélag og þjónustu, sjálfstæði Íslendinga, atvinnu og eðlilega hamingju. Þess vegna er stórmál að umhverfisráðherra hætti þessu nuddi og dragi til baka gerræðisríka ákvörðun sína.